Handbolti

Selfyssingar með sex marka forystu eftir fyrri leikinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Atli Ævar Ingólfsson skoraði fjögur mörk fyrir Selfyssinga í dag.
Atli Ævar Ingólfsson skoraði fjögur mörk fyrir Selfyssinga í dag. Vísir/Hulda

Selfyssingar heimsóttu tékkneska liðið Koprivnice í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð Evrópubikarkeppni karla í handbolta í dag. Selfyssingar voru með frumkvæðið allan leikinn og unnu að lokum öruggan sex marka sigur, 25-31.

Einar Sverrisson skoraði fyrsta mark leiksins og kom Selfyssingum í forystu sem að þeir létu aldrei af hendi.

Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan orðin 10-6, Selfyssingum í vil. Þeir náðu mest sjö marka forskoti í fyrri hálfleik, en það náðist þegar að Hergeir Grímsson skoraði af vítapunktinum rétt áður en hálfleikurinn var flautaður af. Staðan var 19-12 þegar að gengið var til búningsherbergja.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik, en þegar hann var hálfnaður var staðan 26-18.

Heimamenn náðu að klóra aðeins í bakkann og minnkuðu muninn í sex mörk þegar að tæp mínúta var til leiksloka. Selfyssingar náðu ekki að nýta sér seinustu sókn leiksins og lokatölur því 25-31 og Selfyssingar fara með sex marka forskot í seinni leik liðanna sem fram fer á morgun klukkan 16:00 að íslensku tíma.

Einar Sverrisson var markahæstur í liði Selfyssinga með sjö mörk. Þar á eftir komu Ragnar Jóhannsson með sex og Hergeir Grímsson með fimm.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.