Um­fjöllun og viðtöl: Haukar - Fram 29-27 | Deildar­meistararnir byrjuðu með sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Ægir Ólafsson skoraði tíu mörk fyrir Hauka.
Ólafur Ægir Ólafsson skoraði tíu mörk fyrir Hauka. vísir/Elín

Haukar unnu tveggja marka sigur á Fram, 29-27, þegar liðin áttust við á Ásvöllum í 1. umferð Olís-deildar karla í kvöld.

Deildarmeistararnir byrjuðu báða hálfleikina illa en voru heilt yfir sterkari aðilinn. Gestirnir úr Safamýrinni veittu þeim harða keppni en breidd heimamanna skipti sköpum í leiknum í kvöld.

Ólafur Ægir Ólafsson skoraði tíu mörk fyrir Hauka og Stefán Rafn Sigurmannsson sex. Aron Rafn Eðvarðsson varði fjórtán skot (35 prósent) í fyrsta deildarleik sínum með Haukum í átta ár. Vilhelm Poulsen skoraði tíu mörk fyrir Fram og Lárus Helgi Ólafsson varði fimmtán skot (34 prósent).

Fram byrjaði leikinn betur með Vilhelm fremstan í flokki. Hann var í miklum ham og skoraði fjögur af fyrstu sjö mörkum gestanna.

Í stöðunni 6-7 skoruðu Haukar fjögur mörk í röð og náðu yfirhöndinni. Frammarar áttu í vandræðum í sókninni seinni hluta fyrri hálfleiks. Þeim gekk illa að opna vörn Hauka og þegar þeir gerðu það strönduðu þeir oftar en ekki á Aroni Rafni sem varði átta skot í fyrri hálfleik (42 prósent). Lárus Helgi byrjaði vel í marki Fram en datt svo niður.

Haukar náðu mest fjögurra marka forskoti, 12-8, en Fram skoraði þrjú af síðustu fjórum mörkum fyrri hálfleiks og staðan að honum loknum því, 13-11.

Fram byrjaði seinni hálfleikinn betur, skoraði fyrstu tvö mörk hans og jafnaði, 13-13. Lárus Helgi byrjaði seinni hálfleikinn einkar vel og varði fyrstu fimm skotin sem hann fékk á sig.

Eftir erfiða byrjun á seinni hálfleik fóru Haukar í gang og skoruðu fjögur mörk í röð á örskotsstundu, 17-13. Það bil náði Fram ekki að brúa.

Haukar náðu nokkrum sinnum fimm marka forskoti en slitu sig aldrei almennilega frá Fram. Vilhelm hafði mjög hægt um sig framan af seinni hálfleik en hrökk svo allt í einu í gang og skoraði fimm mörk í röð.

Frammarar reyndu og reyndu en forskot Haukanna var of mikið. Á endanum skildu tvö mörk liðin að, 29-27.

Af hverju unnu Haukar?

Haukar eru með mestu breiddina í deildinni á meðan Fram spilar á mun færri leikmönnum. Það hafði sitt að segja. Geir Guðmundsson fann engan veginn taktinn en þá kom Ólafur Ægir inn á og skilaði tíu mörkum. Fram hafði ekki þessa kosti í stöðunni og mikið mæddi á sömu leikmönnum.

Hverjir stóðu upp úr?

Markverðir liðanna og hægri skytturnar Ólafur Ægir og Vilhelm. Þeir skoruðu báðir tíu mörk og voru með ljómandi fína skotnýtingu. Aron Rafn varði vel framan af og Lárus Helgi átti frábæran kafla í upphafi seinni hálfleiks. Brynjólfur Snær Brynjólfsson átti einnig góðan leik fyrir Hauka og skoraði fjögur mörk úr jafn mörgum skotum.

Hvað gekk illa?

Breki Dagsson átti afar erfitt uppdráttar í dag, gerði of mörg mistök og var með afleita skotnýtingu. Sömu sögu er að segja af Geir sem skoraði eitt mark úr sjö skotum.

Þá gerðu Frammarar sig seka um nokkur klaufaleg mistök og fengu meðal annars tvær brottvísanir fyrir vitlausaar skiptingingar.

Hvað gerist næst?

Á fimmtudaginn fær Fram Selfoss í heimsókn. Daginn eftir sækja Haukar Aftureldingu heim í stórleik 2. umferðar.

Aron: Erum komnir í gang

Aron Kristjánsson var sáttur í leikslok.vísir/vilhelm

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, gat vel við unað eftir sigurinn á Fram í kvöld.

„Fyrsti leikur, við erum komnir í gang og tvö stig í hús. Það skiptir máli. Vörnin var lengi vel mjög góð og markvarslan fín en botninn datt úr því seinni hluta leiks,“ sagði Aron.

Haukar voru lengi í gang í seinni hálfleik en skoruðu svo fjögur mörk í röð og náðu taki á Frömmurum sem þeir slepptu ekki.

„Við gerðum of mörg sóknarmistök í byrjun seinni hálfleiks. En við náðum samt aftur tökum á leiknum og héldum því til leiksloka,“ sagði Aron.

„Við vorum lengst af með fjögurra til fimm marka forskot og eftir brösuga byrjun á seinni hálfleik náðum við fínum tökum á leiknum.“

Haukar eru með mjög breiðan hóp og spila á mörgum leikmönnum sem hafði sitt að segja í leiknum í kvöld.

„Við viljum halda góðu tempói út leikinn og menn séu tilbúnir þegar þeir koma inn á. Svoleiðis viljum við gera þetta,“ sagði Aron að lokum.

Einar: Getum ekki gert svona einföld mistök

Einar Jónsson hrósaði sínum mönnum eftir leik.vísir/vilhelm

Einar Jónsson stýrði Fram í fyrsta sinn í deildarleik í átta ár þegar liðið tapaði fyrir Haukum í kvöld. Hann kvaðst nokkuð sáttur með spilamennsku sinna manna en var svekktur með tapið.

„Ég er hundfúll. Það voru fullt af möguleikum til að ná stigum í dag. Á köflum vorum við sjálfum okkur verstir. Við fórum illa með þrjá til fjóra möguleika í hraðaupphlaupum. Þótt Haukar hafi leitt stærstan hluta leiksins var þetta dýrt. Svo gerðum við tvær ólöglegar skiptingar sem er hrikalega dýrt,“ sagði Einar.

„Það er fúlt að tapa en ég er mjög ánægður með okkur. Við börðust í sextíu mínútur og það var margt mjög gott.“

Fram byrjaði seinni hálfleikinn vel en svo skoruðu Haukar fjögur mörk í röð. Það bil náðu Frammarar ekki að brúa.

„Þegar augnablikið var með okkur gerðum við ólöglega skiptingu og tvisvar sinnum áttum við lélegar sendingar í hraðaupphlaupum. En við vorum að spila á móti frábæru liði og þeir refsa grimmt. Við getum ekki gert svona einföld mistök,“ sagði Einar.

Vilhelm Poulsen skoraði tíu mörk fyrir Fram og var langatkvæðamestur í sóknarleik þeirra. Einar hefði kosið að fá meira framlag úr öðrum áttum.

„Vill maður ekki alltaf meira framlag frá fleirum? Sömu leikmenn bera hitann og þungann af varnar- og sóknarleiknum. Kannski náðum við ekki að hreyfa liðið alveg nógu vel til að hafa ferska fætur inn á. Á köflum voru menn þreyttir. En Villi var frábær,“ sagði Einar að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira