Handbolti

Liðsfélagi Bjarna í tveggja ára bann

Sindri Sverrisson skrifar
Richard Hanisch hefur leikið með Elverum í Noregi og Hamburg í Þýskalandi en annars í Svíþjóð.
Richard Hanisch hefur leikið með Elverum í Noregi og Hamburg í Þýskalandi en annars í Svíþjóð. Getty/Alex Nicodim

Sænski handknattleiksmaðurinn Richard Hanisch hefur verið úrskurðaður í tveggja ára keppnisbann vegna ólöglegrar lyfjanotkunar.

Hanisch var liðsfélagi Bjarna Ófeigs Valdimarssonar hjá liði Skövde í Svíþjóð en félagið rifti samningi sínum við Hanisch í síðustu viku vegna málsins.

Hanisch varð uppvís af því að nota örvandi efnið methylexanamine en hann var tekinn í lyfjapróf eftir leik við Kristianstad í undanúrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í apríl. Skövde vann einvígið en tapaði svo í úrslitum mótsins.

Efnið sem Hanisch neytti er leyfilegt við æfingar en ekki í keppni. Hann hefur haldið því fram að hann hafi óvart innbyrt efnið í gegnum fæðubótarefni.

Hanisch er 31 árs og hefur lengst af leikið í Svíþjóð en einnig með Hamburg í Þýskalandi og Elverum í Noregi.

Skövde hóf nýtt tímabil vel á laugardaginn með 32-21 sigri gegn Guif. Bjarni var næstmarkahæstur í liði Skövde með 6 mörk.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.