Skoðun

Flestir flokkar sam­mála um kvóta­kerfi til að stjórna fisk­veiðum

Einar S. Hálfdánarson skrifar

Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, VG, Miðflokkur, Viðreisn og Samfylking eru í aðalatriðum sammála um ágæti íslenska kvótakerfisins til að stjórna fiskveiðum. Tveir flokkar virðast vilja kvótakerfið feigt og taka upp kerfi sóunar verðmæta og verri kjara sjómanna og fiskvinnslu. Sóun verðmætanna felst m.a. í verri nýtingu skipa og veiðarfæra og lélegri nýtingu aflans svo það nokkuð sé talið. Viðreisn og Samfylking skera sig frá öðrum „kvótakerfisflokkum“ hvað hvað varðar gjaldtöku ríkisins. Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, VG, Miðflokkur aðhyllast veiðigjald sem tengist afkomu útgerðarinnar. Ástæða er til að staldra við og skoða tillögur Viðreisnar og Samfylkingar.

Uppboðsleið Viðreisnar og ESB – eitruð blanda

Yrði veiðigjald lagt af og hluti kvótans boðinn upp árlega myndi það líklega verða til þess að stór og öflug útgerðarfyrirtæki ættu auðvelt með að halda sínu eða auka við. Reikna verður með að einungis útgerðarfyrirtæki fengju að bjóða. Að öðrum kosti yrði til brask og spákaupmennskukerfi. Varaformaður Viðreisnar hefur bent á að óvíst sé að tekjur ríkisins ykjust. Telja verður að veiðigjald hafi mikla yfirburði yfir uppboðsleiðina, m.a. vegna minni óvissu um tekjur ríkisins.

Innganga í ESB og uppboðsleið myndi á skömmum tíma ganga af íslenskum sjávarútvegi dauðum. Sjávarútvegsfyrirtæki sem hér væru skráð, en í erlendri eigu myndu vera í yfirburðastöðu við uppboðin. Menn hljóta að sjá að erlend stórfyrirtæki myndu stofna dótturfélög í Íslandi til komast yfir hinn arðbæra, íslenska sjávarútveg.

Samfylking ætlar að stórhækka veiðigjöld

Til skamms tíma hefur Samfylking fylgt svipaðri stefnu og Viðreisn. Svo er að sjá sem flokkurinn hafi séð að sér. Nú ætlar Samfylkingin að sækja um fimm milljarða króna á ári með álagi á veiðigjald sem leggst á tuttugu stærstu útgerðir landsins. Veiðigjöld á síðasta ári voru um 5 milljarðar króna á alla útgerðina. Hvers á sá að gjalda sem á útgerð númer 20 á listanum í samanburði við þann sem er númer 21? Sérstaklega þar sem sá sem er númer 21 gæti nú hafa grætt meir á sínum rekstri en sá sem er númer 20. Þessi skattur leggst þyngst á sjávarbyggðirnar og mun draga úr stórlega getu útgerðarinnar til fjárfestinga og nýsköpunar. Meðalaldur fiskiskipaflotans var 31 ár árið 2018, um 10 árum hærri en um aldamótin. Árið 2019 námu arðgreiðslur aðeins 3,9% sem hlutfall af eigin fé. Það ár námu bein opinber gjöld um 20 milljörðum króna.

Í framhaldinu af stóraukinni skattheimtu munu svo kjörin rýrna. Það er undarlegt að sjá að Samfylking stendur best að vígi á Norðausturlandi þegar þetta er haft í huga.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og löggiltur endurskoðandi. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.