Handbolti

Valsmenn unnu fyrri leikinn í Króatíu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Valsmenn fögnuðu sigri í Porec í kvöld.
Valsmenn fögnuðu sigri í Porec í kvöld.

Góð frammistaða í fyrri hálfleik var grunnurinn að fjögurra marka sigri Vals, 22-18, á Porec frá Króatíu í fyrri leik liðanna í 1. umferð Evrópudeildar karla í handbolta í kvöld. Liðin mætast í síðari leiknum á morgun.

Leikur liðanna frestaðist vegna kórónuveirusmita í herbúðum Vals en þeir unnu Hauka í meistarakeppni HSÍ fyrr í vikunni. Valsmenn voru án Róberts Arons Hostert, Vignis Stefánssonar og Stivens Tobar Valencia í leiknum en japanski landsliðsmaðurinn Motoki Sakai fékk leikheimild fyrir leikinn.

Valur byrjaði leikinn af miklum krafti og komst 5-0 yfir snemma leiks. Um miðjan fyrri hálfleik var staðan 10-4 fyrir Val en þegar hálfleiksflautið gall voru Valsarar með sjö marka forskot, 15-8.

Þeir króatísku byrjuðu síðari hálfleikinn af álíka krafti og Valsarar höfðu gert í þeim fyrri. Þeir skoruðu fimm af fyrstu sex mörkum hálfleiksins til að minnka muninn í þrjú mörk, 16-13. Porec náðu mest að minnka muninn í tvö mörk, 20-18, þegar tíu mínútur lifðu leiks en skoruðu ekki mark eftir það.

Valsarar skoruðu síðustu tvö mörk leiksins og unnu góðan fjögurra marka sigur, 22-18.

Markaskor Vals var dreift í leiknum. Tumi Steinn Rúnarsson var þeirra markahæstur með fimm mörk en Benedikt Gunnar Óskarsson og Magnús Óli Magnússon skoruðu þrjú hvor. Fimm leikmenn skoruðu tvö mörk og Arnór Snær Óskarsson eitt.

Björgvin Páll Gústavsson varði níu af þeim 23 skotum sem hann fékk á sig, með markvörslu upp á rúm 39%. Motoki Sakai náði ekki að verja þær fjórar marktilraunir sem hann fékk á sig.

Síðari leikur einvígisins fer fram í Porec á morgun klukkan 16:00 á íslenskum tíma.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.