Skoðun

Ó­lög­mætur stór­eigna­skattur

Teitur Björn Einarsson skrifar

Jóhann Páll Jóhannsson, frambjóðandi Samfylkingarinnar, ritar pistil hér á Vísi.is í dag og bregst ókvæða við gagnrýni minni á áform Samfylkingarinnar um að leggja á stóreignaskatt. Í pistli Jóhanns fer lítið fyrir svörum og rökstuðningi hvernig stóreignaskattur brjóti ekki gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og eignarréttarákvæði.

Þvert á það sem Jóhann Páll heldur fram hefur Alþingi ekki mikið og rúmt svigrúm til að skattleggja hvern og einn eins og löggjafanum sýnist. Nægir í þeim efnum að líta til 40. gr og 77. gr. stjórnarskrár Íslands. Þá verður Alþingi að leggja á skatt með lögum að teknu tilliti til jafnræðisreglunnar og eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Fordæmi Hæstaréttar um þessa þýðingarmiklu stjórnskipunarreglu eru mörg. Í dómi Hæstaréttar, nr. 726/2013, var fjallað um lögmæti auðlegðarskattsins, sem vinstri stjórnin kom á tímabundið á árunum 2010 til 2012.

Hæstiréttur dæmdi skattinn lögmætan á þeim forsendum að hann væri tímabundinn og líta þyrfti til þeirra aðstæðna sem uppi voru í þjóðfélaginu við fall viðskiptabankanna og tekjuhruns ríkissjóðs. Nánar tiltekið segir í forsendum dómsins um eignarréttarspurninguna:

„Við úrlausn um hvort lagaákvæðin um auðlegðarskatt séu stjórnskipulega gild verður að horfa til þess við hvaða aðstæður lögin voru sett og hvert hafi verið markmið þeirra, hvers eðlis skatturinn er og hver sé upphæð hans.“

Hæstiréttur horfði þannig sérstaklega til þeirra fordæmalausu aðstæðna sem uppi voru í þjóðfélaginu og að skatturinn væri tímabundinn. Hæstiréttur tiltekur að löggjafinn hafi rúmt svigrúm til að meta þau sjónarmið sem búa að baki skattlagningu. Um það er ekki deilt. En útfærsla skattsins og upphæð hans verða að rúmast innan þeirra skilyrða sem Hæstiréttur tiltekur í dómnum til að slík skattlagning standist áskilnað stjórnarskrárinnar.

Jóhann Páll nefnir sérstaklega að Samfylkingin ætli að nýta svigrúm ríkissjóðs til að efna kosningaloforð sín. Augljóslega liggja þau sjónarmið ekki að baki skattlagningunni að slíkur vandi steðji að ríkissjóði að grípa verði til stóreignaskatts. Þá getur Jóhann Páll þess ekki að slíkur skattur verði tímabundinn.

Það er merkilegt að flokkur eins og Samfylkinginn, sem leggur mikla áherslu á nýja stjórnarskrá, skuli ekki bera meiri virðingu fyrir gildandi stjórnarskrá en raun ber vitni. Rétt er að minna Jóhann Pál á að ef hann nú verður kosinn á þing þá ber honum að vinna drengskaparheit að stjórnarskránni. Hún er í gildi.

Höfundur skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×