Handbolti

Gísla vel fagnað þegar hann sneri aftur eftir fimm mánaða fjarveru

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur glímt við erfið meiðsli undanfarin ár.
Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur glímt við erfið meiðsli undanfarin ár. getty/Peter Niedung

Eftir langa fjarveru vegna meiðsla sneri Gísli Þorgeir Kristjánsson aftur á völlinn þegar Magdeburg mætti Erlangen í æfingaleik í gærkvöldi.

Gísli skoraði eitt mark í öruggum sigri Magdeburg, 34-22. Ómar Ingi Magnússon var næstmarkahæstur hjá Magdeburg með fimm mörk. Þetta var síðasti æfingaleikur Magdeburg áður en keppni í þýsku úrvalsdeildinni hefst.

Gísli kom inn á eftir átján mínútur og áhorfendur klöppuðu honum lof í lófa. Þetta var fyrsti leikur Gísla síðan hann fór úr axlarlið í leik Magdeburg og Füchse Berlin í þýsku úrvalsdeildinni 21. mars. Það var í þriðja sinn sem hann fer úr axlarlið á ferlinum. Gísli gekkst undir aðgerð á öxl í vor og er nú kominn aftur út á völlinn.

Í samtali við handbolta.is sagðist Gísli vera himinlifandi með endurkomuna. „Þetta var æðisleg tilfinning. Ég býst ekki við öðru en að verða tilbúinn í fyrsta leik í deildinni,“ sagði Gísli en Magdeburg tekur á móti Viggó Kristjánssyni og Andra Má Rúnarssyni og félögum í Stuttgart á fimmtudaginn.

Á síðasta tímabili endaði Magdeburg í 3. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar og vann EHF-bikarinn.

Gísli, sem er 22 ára, skoraði 39 mörk og gaf 27 stoðsendingar í þýsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Hann gekk í raðir Magdeburg frá Kiel í fyrra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.