Handbolti

Hákon Daði markahæstur er Gummersbach fór áfram

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hákon Daði fór frá ÍBV til Gummersbach í sumar.
Hákon Daði fór frá ÍBV til Gummersbach í sumar.

Gummersbach vann í kvöld 25-20 sigur á þriðju deildarliði Pforzheim/Eutingen í þýsku bikarkeppninni í handbolta og komst þannig áfram í næstu umferð. Hákon Daði Styrmisson var markahæstur í liði Gummersbach.

Um er að ræða fyrsta leik beggja liða á leiktíðinni en Gummersbach hefur leik í B-deildinni í Þýskalandi þann 14. september. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach og mun stýra liðinu á sinni annarri leiktíð í vetur.

Gummersbach var töluvert sterkari aðilinn framan af leik og leiddi með sex marka mun, 14-8, í hálfleik. Heimamenn bitu frá sér í síðari hálfleiknum en sigur gestanna var aldrei í hættu. Gummersbach vann með fimm marka mun, 25-20.

Hákon Daði Styrmisson kom til Gummersbach í sumar frá ÍBV og fer vel af stað með liðinu. Hann var markahæstur í liðinu með sjö mörk, þar af eitt af vítalínunni. Hann klúðraði hins vegar tveimur vítaköstum.

Félagi hans Elliði Snær Viðarsson skoraði tvö mörk í leiknum.

Gummersbach er því komið áfram í aðra umferð bikarsins sem verður leikin í byrjun október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×