Handbolti

Kórdrengir vilja beint í B-deildina

Valur Páll Eiríksson skrifar
handbolti stock photo
handbolti stock photo Mynd/Vísir

Kórdrengir hafa sett á fót handboltalið sem mun taka þátt í deildarkeppni HSÍ í vetur. Þeir hafa fengið inn í 2. deild karla en hafa sóst eftir því við handknattleikssambandið að fara beint upp í næst efstu deild, Grill66-deild karla.

Handbolti.is greinir frá tíðindunum í dag. Kórdrengir hafa ekki átt handboltalið fram til þessa en fótboltalið félagsins hefur flogið upp deildirnar undanfarin ár og er í baráttu um sæti í efstu deild. Þó segir í frétt handbolta.is að tengslin milli fótbolta- og handboltaliðs félagsins séu ekki meiri en nafnið eitt.

Ekki er víst hvar Kórdrengir muni æfa og spila leiki sína en þeirra upplýsinga sé að vænta á næstu dögum. Hinrik Geir, forsvarsmaður liðsins, segir við handbolta.is að mikill metnaður sé að baki verkefninu og liðið muni eiga fullt erindi í B-deildina.

Áhugavert verður að sjá hvar Kórdrengir munu hýsa starfsemi sína en lið Kríu, sem lagði upp laupana í sumar eftir að hafa tryggt sæti sitt í Olís-deildinni, sendi frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að bölvanlega hafi gengið að finna húsnæði undir starfsemi félagsins sem hafi átt sinn þátt í því að það hætti störfum.

Nýtt lið Berserkja, sem var skráð til leiks í sumar, tók sæti í Grill66-deildinni þrátt fyrir að vinna sér ekki inn þar sæti, en það var að sökum þess að Víkingur fór upp úr deildinni í Olís-deildina eftir að Kría var lögð af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×