Körfubolti

Skipt á milli NBA liða í annað skiptið á aðeins 48 klukkutímum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nei karlinn minn. Ekki einu sinni heldur tvisvar. Patrick Beverley fór frá Los Angeles Clippers  til Memphis Grizzlies til Minnesota Timberwolves á tveimur sólarhringum.
Nei karlinn minn. Ekki einu sinni heldur tvisvar. Patrick Beverley fór frá Los Angeles Clippers  til Memphis Grizzlies til Minnesota Timberwolves á tveimur sólarhringum. EPA-EFE/ETIENNE LAURENT

Patrick Beverley var aðeins leikmaður Memphis Grizzlies í tvö sólarhringa því honum hefur nú verið skipt áfram til Minnesota Timberwolves í NBA deildinni í körfubolta.

Beverley hefur verið leikmaður Los Angeles Clippers undanfarin ár en Clippers skipti honum til Memphis um helgina.

Beverley náði hvorki að æfa né spila með Memphis liðinu því félagið skipti honum strax aftur í nótt til Timberwolves fyrir bakvörðinn Jarrett Culver og framherjann Juancho Hernangomez. Beverley er 33 ára en hinir eru mun yngir, Culver er bara 22 ára og Hernangomez er 25 ára.

Beverley er þekktur fyrir að spila harðan og góðan varnarleik og var í leiðtogahlutverki hjá Los Angeles Clippers.

Beverley hafði spilað með Clippers undanfarin fjögur ár og var vinsæll hjá bæði liðsfélögum og stuðningsmönnum liðsins.

Beverley er litríkur og kappsamur leikmaður sem reynir eftir fremsta megni að komast undir skinnið hjá mótherjum sínum. Það vakti mikla athygli þegar Beverley fagnaði NBA titlinum eftir að Clippers samdi við þá Kawhi Leonard og Paul George sumarið 2019. Sá titill kom hins vegar aldrei í hús.

Á níu tímabilum með Houston Rockets og Clippers þá er Beverley með 8,8 stig, 4,3 fráköst og 3,4 stoðsendingar að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×