Viðskipti innlent

Loftslagsverkefni Carbfix og ON fær 600 milljóna króna styrk

Heimir Már Pétursson skrifar
Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, og Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar.
Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, og Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar.

Carbfix og Orka náttúrunnar, dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur, hafa hlotið styrk úr Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins (Innovation Fund) í verkefnið Silfurberg.

Í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur segir að styrkurinn sé einn sá hæsti sem veittur hafi verið til loftslagsverkefnis hér á landi og nemi um 3,9 milljónum evra, eða tæplega 600 milljónum króna. 

Þetta væri jafnframt í fyrsta sinn sem íslenskt verkefni væri styrkt af sjóðnum. 

Markmið Silfurbergs-verkefnisins væri að byggja nýja hreinsistöð við Hellisheiðarvirkjun sem muni fanga nær allt koldíoxíð og brennisteinsvetni úr útblæstri virkjunarinnar sem síðan verði dælt niður í nálæg basaltberglög til varanlegrar steinrenningar með Carbfix tækninni. 

Þar með muni Orka náttúrunnar skipa sér í fremsta flokk grænnar jarðvarmanýtingar með sporlausri framleiðslu rafmagns og varma.

„Það er mikil viðurkenning fyrir ungt þekkingarfyrirtæki eins og Carbfix að fá svo veglegan styrk úr nýsköpunarsjóðnum og til merkis um að kolefnisförgun með Carbfix tækninni er í senn hagkvæm og umhverfisvæn loftslagslausn sem getur haft áhrif langt út fyrir landsteinanna,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbafix í tilkynningu.

Þá segir Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar:

„Nýja loftslagsskýrslan frá Sameinuðu þjóðunum sýnir að við verðum öll að gera betur í baráttunni gegn loftslagsvánni. Orkan frá ON – hvorttveggja rafmagnið og heita vatnið – er græn en við viljum, verðum og ætlum að gera enn betur. Á grunni styrksins stígum við stórt skref í átt að sporlausri starfsemi, metnaðarfullri og um leið nauðsynlegri vegferð sem öll fyrirtæki ættu að taka þátt í.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×