Skoðun

Við­vörunar­bjöllur hringja

Eydís Ásbjörnsdóttir skrifar

Samkvæmt lögum er það á ábyrgð ríkisins að veita öllum heilbrigðisþjónustu en eins og við vitum er staðreyndin sú að því lengra sem farið er frá höfuðborgarsvæðinu þeim mun minni verður þjónustan. Þetta þekkjum við landsbyggðafólkið vel. Líklega of vel.

Á síðustu árum hafa sveitarfélög eflt heilbrigðisþjónustu sína, m.a. með aukinni fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðum í skólum og félagsþjónustu. Ríkið hefur eflt geðheilbrigðisþjónustu í gegnum heilsugæsluna og það er vel.

En meira þarf til.

Nýtum við mannauðinn?

Það er óumdeilt að við erum með öflugt starfsfólk hjá sveitarfélögum og ríkisstofnunum sem sinnir margs konar heilbrigðisþjónustu. Við eigum mikinn mannauð en spurningin er og hefur verið lengi: Erum við að nýta hann til fulls?

Því miður er það svo að stjórnun þessa málaflokks er oft á tíðum ábótavant, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þetta lýsir sér t.d. í takmörkuðum úrræðum og löngum og óskýrum boðleiðum. Þá er oft til staðar sérþekking í landinu sem stendur fólki landsbyggðanna ekki til boða og rauði þráðurinn sem liggur í gegnum þetta allt saman er svo skortur á fjármagni.

Tveggja ára bið eftir þjónustu

Hvergi er þetta jafn greinilegt og þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu. Því miður er það svo – og hefur verið alla tíð – að geðsjúkdómar og meðhöndlun þeirra er ekki litin sömu augum og meðferð annarra meinsemda.

Mikilvægi réttrar greiningar verður ekki ofmetið þegar kemur að meðhöndlun andlegra veikinda, sama má segja um stutta biðtíma og aðgang að réttum úrræðum. Þetta getur einfaldlega verið spurning um líf og dauða og því er skelfilegt til þess að vita að á barna- og unglingageðdeild (BUGL) er átta mánaða bið eftir þjónustu og um 150 börn á biðlista. Þá hafa um 340 börn og ungmenni verið á biðlista hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og þar er tveggja ára bið. Það er hreinlega ekki boðlegt í litlu og ríku landi sem vill skilgreina sig sem norrænt velferðarríki.

Viðvörunarbjöllur hringja

Lýðheilsuvísar, aðgengilegir á heimasíðu landlæknis, eru ágætis mælistika á það hvernig við stöndum okkur þegar kemur að heilbrigðismálum. Hér eru nokkrar staðreyndir um geðheilbrigðismál á Norður- og Austurlandi sem ættu að hringja viðvörunarbjöllum hjá stjórnvöldum:

  • Notkun þunglyndislyfja er ekki gefin upp í nýjustu gögnunum (frá árinu 2021) en upplýsingar frá árunum 2017 til 2020 sýna að á landsvísu var notkunin mest á Austurlandi og næstmest á Norðurlandi.
  • Í nýjustu gögnunum (frá árinu 2021) kemur fram að einmanaleiki fullorðinna mældist mestur á Austurlandi.
  • Á árunum 2019 og 2021 kemur fram að andleg heilsa framhaldsskólanema á Norðurlandi er lakari en annars staðar á landinu.
  • Árið 2019 var þunglyndislyfjanotkun kvenna mest á landinu á Austurlandi (það sýna einnig eldri gögn) og meðal karla mest á Norðurlandi.

Sem fyrr segir er þunglyndislyfjanotkun ekki gefin upp í nýjustu gögnunum frá landlækni. Því miður hringja ýmsar viðvörunarbjöllur við lestur þessara talna. Flest bendir til að notkun þunglyndislyfja sé óvenjumikil á Austur- og Norðurlandi og það er nauðsynlegt fyrir stefnumótun í þessum málaflokki að öll gögn liggi fyrir og séu aðgengileg almenningi.

Úrræði fyrir alla - óháð búsetu

En fyrir mikilli lyfjagjöf á Norður- og Austurlandi er mjög líklega ein veigamikil orsök:

Skortur á öðrum geðheilbrigðisúrræðum.

Og það er grafalvarlegt.

Samfylkingin vill halda uppi sterkri almennri velferðar- og heilbrigðisþjónustu á Íslandi til að uppfylla kröfur okkar og hugsjónir um félagslegt réttlæti. Það er réttlætismál að börn og ungmenni þurfi ekki að borga fyrir geðheilbrigðisþjónustu og það munum við í Samfylkingunni berjast fyrir. Geðheilbrigðismál þarf að taka alvarlega, ekki síst á landsbyggðunum þar sem gögnin benda til að staðan fari versnandi ár frá ári.

Það er gríðarlega mikilvægt að bæta aðgengi að þjónustu sem við eigum öll rétt á og löngu tímabært að þróa og innleiða ný úrræði sem nýtast öllum þeim börnum og fjölskyldum sem á þurfa að halda óháð búsetu.

Höfundur er forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og skipar þriðja sætið á framboðslista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.