Handbolti

Spánverjar náðu bronsinu eftir háspennuleik

Valur Páll Eiríksson skrifar
Alex Dujshebaev var öflugur í leiknum í morgun.
Alex Dujshebaev var öflugur í leiknum í morgun. Dean Mouhtaropoulos/Getty Images

Spánn hlaut bronsverðlaun í handbolta karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun. Þeir spænsku lögðu Egypta naumlega, 33-31, í leiknum um þriðja sæti mótsins.

Þeir spænsku höfðu tapað 27-23 fyrir Dönum í undanúrslitum keppninnar á meðan Egyptar töpuðu með sömu markatölu fyrir Frökkum. Danir og Frakkar mætast í úrslitum síðar í dag.

Egyptar byrjuðu betur í leiknum í morgun og komust 4-2 yfir. Þeir komust hins vegar ekki aftur yfir í fyrri hálfleiknum þar sem Spánn var með eins marks forystu framan af, á milli þess sem Egyptar jöfnuðu leikinn. Á síðari hluta hálfleiksins slitu þeir spænsku sig lítillega frá og voru með þriggja marka forskot í hálfleik, 19-16.

Egyptar unnu hratt á þá spænsku í upphafi síðari hálfleiks og skoruðu fimm mörk gegn tveimur til að jafna leikinn, 21-21. Síðari hálfleikurinn spilaðist þá eins og stór hluti þess fyrri þar sem Spánverjar voru ávallt skrefi á undan, einu marki yfir á meðan Egyptar jöfnuðu. Egyptar náðu aldrei að taka næsta skref og komust aldrei yfir í síðari hálfleik. Egyptar minnkuðu muninn í 32-31 þegar um hálf mínúta var eftir en þeir spænsku skoruðu síðasta mark leiksins til að vinna 33-31 sigur.

Spánn hlýtur því brons á leikunum og jafna þeir þar með sinn besta árangur. Spánverjar hafa aldrei komist í úrslit á leikunum en hljóta brons í fjórða skipti eftir að hafa fengið slíkt árin 1996, 2000 og 2008.

Hægri hornamaðurinn Aleix Gómez var markahæstur í spænska liðinu með átta mörk en gamlinginn Antonio García Robledo skoraði sex mörk. 37 ára jafnaldri hans, Ahmed El-Ahmar skoraði átta mörk fyrir Egypta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×