Handbolti

Annað grátlegt tap hjá strákunum hans Alfreðs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfreð Gíslason er á sínu öðru stórmóti með þýska landsliðið.
Alfreð Gíslason er á sínu öðru stórmóti með þýska landsliðið. getty/Swen Pförtner

Strákarnir hans Alfreðs Gíslasonar í þýska handboltalandsliðinu urðu að sætta sig við tap fyrir Frakklandi, 30-29, í þriðja leik sínum í A-riðli Ólympíuleikanna í Tókýó.

Þýskaland er aðeins með tvö stig í A-riðlinum eftir sigur á Argentínu og tvö naum töp fyrir Spáni og Frakklandi.

Þjóðverjar eru í 4. sæti riðilsins en Frakkar í því fyrsta með fullt hús stiga. Þýskaland mætir Noregi í næsta leik og svo Brasilíu í lokaumferð riðlakeppninnar.

Frakkar byrjuðu leikinn miklu betur og komust í 7-2. Um miðjan fyrri hálfleik munaði svo sjö mörkum á liðunum, 14-7. Þjóðverjar enduðu fyrri hálfleikinn ágætlega og að honum loknum munaði þremur mörkum á liðunum, 16-13.

Þýskaland byrjaði seinni hálfleikinn vel og komst yfir í fyrsta sinn í leiknum, 18-19. Frakkaland svaraði með fjórum mörkum í röð og náði undirtökunum á ný.

Lokakaflinn var gríðarlega spennandi. Kentin Mahé kom Frökkum yfir, 29-28, og Hugo Descat jók muninn svo í tvö mörk, 30-28, þegar rúm mínúta var eftir. Philipp Weber lagaði stöðuna fyrir Þjóðverja, 30-29, en nær komust þeir ekki. Strákarnir hans Alfreðs fóru illa að ráði sínu undir lokin og töpuðu boltanum þrisvar sinnum á síðustu fjórum og hálfu mínútu leiksins.

Dika Mem var markahæstur í franska liðinu með sex mörk og Descat skoraði fimm. Timo Kastening skoraði sjö mörk fyrir Þýskaland og Steffen Weinhold sex.

Úrslit dagsins

A-riðill

  • Brasilía 25-32 Spánn
  • Frakkland 30-29 Þýskaland
  • Noregur 27-23 Argentína

B-riðill

  • Danmörk 31-21 Barein
  • Svíþjóð 29-28 Portúgal
  • Japan 29-33 Egyptaland



Fleiri fréttir

Sjá meira


×