Skoðun

1. júlí reyndist 1. apríl

Guðmundur Andri Thorsson skrifar

Ríkisstjórnin lét þjóðina hlaupa apríl þegar hún hélt hátíð í Hörpu og hrósaði sigri yfir veirunni. Í góðri trú hélt fólk út á göturnar og fagnaði í fölskvalausri og grímulausri gleði. Allt var opnað upp á gátt: hingað á grænu eyjuna var stefnt skemmtanaþyrstu fólki sem langaði að djamma fram á morgun í fullkomnu áhyggjuleysi. Engin próf, engar grímur, engar fjarlægðir, engin gát, engar áhyggjur.

Það tók veiruna undraskamman tíma að ná sér á strik, og tölur yfir smitaða fara hækkandi dag frá degi. Rétt eins og í fyrrasumar var farið of geyst í gleðinni, undir forystu ríkisstjórnarinnar sem gaf tóninn, þá eins og nú.

Í þetta sinn virðist sem of mikil áhersla hafi verið lögð á að bólusetja ungt fólk með Jansen-efninu sem veitir greinilega ekki nógu góða vörn fyrir nýjasta afbrigði veirunnar. Kannski við hefðum átt að gera eins og Danir og sniðganga það efni. Öll áhersla var lögð á að klára bólusetningar á undan öðrum; sigra í einhverri ímyndaðri keppni, sigra sóttvarna-ólympíuleikana með kosningarnar í haust sem lokamarkið: verða græna eyjan á undan öllum öðrum.

Um leið voru barirnir og aðrir samkomustaðir ungs fólks galopnaðir fram á morgun, til að ná inn sem mestu fé á sem skemmstum tíma, án þess að gefa gaum hættunni á því að stefna öllu þessu fólki saman.

Afleiðingarnar af þessu bráðræði blasa við: Græna eyjan varð aftur gul og svo rauð. 1. júlí – opnunardagurinn mikli – reyndist 1. apríl.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×