Handbolti

Sagan endurtekur sig - Víkingar vilja sæti Kríu í Olís-deildinni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Víkingur og Kría eigast við í vetur.
Víkingur og Kría eigast við í vetur.

Víkingar frá Reykjavík vilja taka sæti Kríu í Olís-deild karla í handbolta á komandi leiktíð. Kría hafði tryggt sér sæti í deildinni en mun ekki senda lið til leiks. Síðast þegar Víkingur komst í efstu deild fékk það sæti undir svipuðum kringumstæðum.

Handbolti.is greinir frá því að Víkingur muni sækjast eftir sæti Kríu í efstu deild. Kría hafði betur gegn Víkingi úrslitaeinvígi umspils um sæti í Olís-deildinni að ári, en lét Handknattleikssamband Íslands vita af því í vikunni að félagið myndi ekki senda lið til leiks, hvorki í efstu né næstefstu deild.

Kría kemur af Seltjarnarnesi og lék í húsum Gróttu í Grill66-deildinni á síðasta ári. Samkvæmt heimildum Vísis var ekki var pláss fyrir þá æfinga- og leiktíma sem þeir kröfðust á Nesinu fyrir næsta tímabil. Kríumenn leituðu logandi ljósi að húsaskjóli, þar sem haft var samband við bæði íþróttafélög og sveitarfélög, með það að markmiði að halda liðinu gangandi í efstu deild, en varð ekki erindi sem erfiði.

Kría gaf því frá sér sæti í Olís-deildinni á næstu leiktíð og ef marka má fréttir handbolta.is munu Víkingar sækjast eftir að leysa Kríumenn af. Samkvæmt reglum HSÍ eru Víkingar næstir í röðinni, eftir tap sitt í umspilinu.

Vilji Víkingar ekki taka sætið eru Þórsarar þeim næstir í röðinni og svo ÍR en bæði lið féllu úr Olís-deildinni í vor.

Víkingur var síðast í Olís-deildinni tímabilið 2017-18 og féll þá beint niður aftur í næst efstu deild eftir eina leiktíð. Þá hlaut liðið sæti undir svipuðum kringumstæðum, þegar KR komst upp í Olís-deildina eftir umspil, en dró liðið sitt úr keppni vegna aðstöðumála, rétt eins og Kría nú.

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.