Handbolti

Skoða hvort breyta eigi reglunum um bikiníbuxurnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Norska kvennalandsliðið í strandhandbolta í stuttbuxunum sem þær mega ekki spila í.
Norska kvennalandsliðið í strandhandbolta í stuttbuxunum sem þær mega ekki spila í. norska handknattleikssambandið

Evrópska handknattleikssambandið, EHF, skoðar nú hvort það eigi að breyta reglum um klæðaburð kvenna á mótum í strandhandbolta.

Strangar reglur eru um klæðnað kvenna en þær þurfa að klæðast bikiníi á mótum. Á meðan eiga karlar að klæðast hlýrabolum og stuttbuxum. 

Norska handknattleikssambandið hefur farið fremst í baráttunni um að breyta þessum reglum og óskaði eftir því að kvennalandsliðið fengi að spila í stuttbuxum á EM í Búlgaríu sem lauk um helgina. Norska liðinu var hótað sektum og að því yrði jafnvel hent úr keppni fyrir að fara ekki eftir reglum um klæðaburð og gaf þá eftir.

En í lokaleik sínum á EM, gegn Spáni um 3. sætið, mætti Noregur til leiks í stuttbuxunum sem þær óskuðu eftir að spila í fyrir mótið. Fyrir það fékk norska liðið sekt upp á 1.500 evrur, eða rétt rúmlega 220 þúsund íslenskar krónur.

Í yfirlýsingu sem birtist á vef EHF kemur að á döfinni sé að fara yfir og jafnvel endurskoða reglur um klæðaburð kvenna á mótum í strandhandbolta. Það verði gert í samvinnu við IHF, Alþjóða handknattleikssambandið.

Í yfirlýsingunni segir að EHF sé staðráðið í að auka vinsældir strandhandbolta og hlusti á allar tillögur sem geti hjálpað til í þeim efnum.

Þar segir einnig að málið hafi verið rætt á fundi þings EHF í apríl 2021 að frumkvæði norska handknattleikssambandsins og í framhaldinu hafi verið ákveðið að taka það fyrir á fyrsta fundi sérstaks strandhandknattleikssambands í ágúst.

Forseti norska handknattleikssambandsins, Kåre Geir Lio, segir að það hafi barist fyrir því að breyta reglunum í nokkur ár, úrbútum hafi verið lofað en ekkert hafi svo gerst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×