Körfubolti

Lebron segist vilja enda ferilinn hjá Lakers

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron stefnir á að vera í L.A. það sem eftir lifir ferilsins.
LeBron stefnir á að vera í L.A. það sem eftir lifir ferilsins. Bauer-Griffin/FilmMagic

Körfuknattleiksmaðurinn LeBron James sagði í viðtali fyrir skömmu að hann ætlaði sér að enda ferilinn hjá Los Angeles Lakers. Þó ekki fyrr en eftir fjögur til sjö ár en Lebron er 36 ára gamall í dag.

LeBron James er einn besti körfuboltamaður samtímans. Hann hefur spilað í NBA-deildinni síðan 2003 og stefnir á að spila meira en tvo áratugi í deildinni. LeBron samdi við Lakers árið 2018 eftir að hafa spilað með Cleveland Cavaliers og Miami Heat. 

Hann hefur nú sagt að hann vilji enda ferilinn í Englaborginni en hann ætlar sér ekki að leggja skóna á hilluna fyrr en eftir fertugt.

„Ég vona innilega að ég geti endað ferilinn með Lakers, sama hversu mörg ár ég á eftir – fjögur, fimm, sex eða sjö. Ég vona að ég geti haldið áfram að spila leikinn. Ég elska að vera í Los Angeles, fjölskyldan mín elskar að vera í Los Angeles.“

„Að vera hjá sögufrægu liði eins og Lakers er eitthvað annað, þetta er eins og ég í Space Jam. Ég bjóst ekki við að þetta væri möguleiki. Maður hugsar um Kareem Abdul-Jabbar, Magic Johnson, Wilt Chamberlain, Jerry West, Elgin Baylor, Kobe Bryant, Shaq og alla þessa leikmenn. Listinn er endalaus,“ sagði LeBron í viðtali nýverið. Hann var þar að ræða kvikmyndina Space Jam: A New Legacy, þar sem hann fer með aðalhlutverkið.

Það var í raun löngu vitað að LeBron ætlaði sér alltaf að enda ferilinn hjá Lakers. Það var síðasta skrefið hans á annars frábærum ferli þar sem hann hefur nú þegar unnið fjóra meistaratitla og alls farið í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar tíu sinnum.

Hann hefur gefið út að honum langi að spila þangað til Bronny, sonur hans, mæti í deildina en þeir feðgar eiga sér þann draum að spila saman. Þó LeBron sé orðinn 36 ára þá er hann enn í fullu fjöri og ef ekki hefði verið fyrir slæm meiðsli á þessu tímabili hefðu Lakers ef til vill farið lengra.

Það verður að koma í ljós hversu lengi LeBron spilar en miðað við feril hans til þessa kæmi lítið á óvart ef hann myndi spila þangað til hann væri fertugur.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.