Skoðun

Ertu aktívisti eða andstæðingur? Þú skuldar mér afstöðu

Þórarinn Hjartarson skrifar

Þrátt fyrir göfug markmið ýmissa hreyfinga í réttindabaráttu eiga þær til að skjóta sig í fótinn með því að reiðast út í fólk sem að tekur ekki afstöðu. Fólk á, með öðrum orðum, að vera málefnið jafn huglægt og það sjálft. Hlutleysi er litið hornauga og krefst frekari útskýringa. Annaðhvort ertu aktívisti eða andstæðingur. Þú ert dreginn til ábyrgðar. „Við þurfum að opna umræðuna um þetta.“ En að sjálfsögðu er aðeins ein afstaða liðin.

Spurningar og vangaveltur eru bakslag og þær kveðnar í kútinn með slagorðum. Vangavelturnar eru birtar öðru baráttufólki. Með því friðþægja þau eigin samvisku. Fólk keppist við að móta hnittnar setningar til þess að deila með vinum sínum og samgleðjast framfaraskrefum með vísan til umræðna við fólk sem eru sömu skoðunar. Öfgafyllsta manneskjan ber svo sigur úr bítum.

Það er auðvitað ósanngjarnt að vísa til ómálefnalegasta fólksins til þess að færa rök fyrir hinu gagnstæða í hverskyns umræðu. Ástæða þess, hins vegar, að fólk er ragt við að styðja hverskyns réttindabaráttu er að baráttufólkið tekur ekki á ómálefnalegustu rökfærslunum eða telur þær jafnvel nauðsynlegar og styðja þær.

Forsenda þess að fólk er ekki tilbúið að stíga um borð í lest til fyrirheitnalands þeirra sem krefjast þess að vera boðberar sannleikans í sinni réttindabaráttu er ekki af því að fólki líkar illa við fólk eða hópa. Það er vegna þess að því mislíkar að snúið sé upp á handlegg þess þegar þau eru ekki sannfærð um afstöðu trúboðanna. Flestir hafa annað að gera en að kynna sér allar hliðar allra samfélagsmála.

Þú, kæri lesandi, skuldar engum afstöðu og enginn skuldar þér afstöðu.

Höfundur er þáttastjórnandi í hlaðvarpinu Ein Pæling



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×