Handbolti

Full­kominn endir á full­komnu tíma­bili er Barcelona varð Evrópu­meistari

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Barcelona vann sinn 10. Evróputitil í sögunni í dag.
Barcelona vann sinn 10. Evróputitil í sögunni í dag. @FCBhandbol

Barcelona fullkomnaði ótrúlegt tímabil með 13 marka sigri á Álaborg í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í dag, lokatölur 36-23. Barcelona vann alla 60 leikina sem það spilaði á leiktíðinni. Afrek sem verður eflaust seint toppað.

Álaborg byrjaði leikinn mun betur og komst í 4-1 áður en Börsungar tóku öll völd á vellinum. Eftir að jafna metin í 5-5 litu leikmenn Barcelona aldrei um öxl. 

Munurinn í hálfleik var fimm mörk, staðan þá 16-11.

Bilið breikkaði og breikkaði er leið á síðari hálfleik og fór það svo að Barcelona vann á endanum mjög öruggan 13 marka sigur, lokatölur 36-23.

Aleix Gómez Abelló var markahæstur í lið Börsunga með 9 mörk. Þar á eftir kom Timothey N'guessan, Timothey með 6 mörk. Lukas Sandell var markahæstur hjá Álaborg með 8 mörk.

Aron Pálmarsson var í leikmannahópi Börsunga en kom ekki að sögu þessu sinni þar sem hann hefur verið að glíma við meiðsli. Hann tók til að mynda ekki þátt í undanúrslitaleik liðsins.

Aron hefur nú þegar samið við Álaborg um að leika með liðinu á næstu leiktíð. Þar hittir hann fyrir Arnór Atlason sem er aðstoðarþjálfari liðsins.

Þetta var 10. úrslitaleikur Arons á ferlinum en aðeins í þriðja sinn sem lið hans hrósar sigri. Hann yfirgefur Barcelona því sem bæði Spánar- og Evrópumeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×