Körfubolti

Gunnar Óla.: Ekki séns að ég sleppi leikjum á þessum tímapunkti

Árni Jóhannsson skrifar
Gunnar var tæpur fyrir leikinn í kvöld en það sást ekki á honum.
Gunnar var tæpur fyrir leikinn í kvöld en það sást ekki á honum. vísir/bára

Stjarnan tryggði sér oddaleik í undanúrslitarimmunni við Þór frá Þorlákshöfn með því að leggja þá að velli í fjórða leik liðanna 78-58. Það er mál manna að þeir hafi mætt af meiri hörku í leikinn og náð að setja sitt fingrafar á leikinn. Gunnar Ólafsson átti lykilkörfur sem komu hans mönnum á bragðið en hann var sáttur eftir leikinn.

Gunnar var spurður fyrst hvort það hafi ekki  verið varnarleikur liðsins sem var lykillinn að því að Stjarnan vann Þór frá Þorlákshöfn. Hann var sammála blaðamanni í því.

„Þetta var varnarleikurinn klárlega. Við náðum bara að spila betur í dag og spila eins og við viðljum spila. Við náðum að hægja vel á leiknum og þeir vilja spila hratt. Þannig að við gerðum bara margt vel í dag sem við gerðum ekki um daginn.“

Gunnar var þá spurður út í næsta leik og hvað hann og hans menn þurfi að gera til að halda uppi sama dampi þegar liðin mætast aftur á laugardaginn í oddaleiknum.

„Við þurfum bara að vera áfram einbeittir og vera það stöðugir að við getum spilað tvo eins leiki. Það er það sem við stefnum á að gera.“

Gunnar var tekinn út af nokkuð snemma í seinasta leik en hann varð fyrir hnjaski og var spurður út í ástandið á sér en það var mikill vafi á því hvort hann gæti spilað leikinn í kvöld. Hann gerði gott betur og skipti máli en var spurður að því hvernig standið væri á honum.

„Ég hef verið betri, ég ætla ekki að ljúga að þér. Það er bara ekki séns að ég sleppi leikjum á þessum tímapunkti. Það kemur bara ekki til greina. Þetta er ekkert hættulegt sem betur fer og ef það væri þannig þá væri ég líklega ekki að spila en fyrst að þetta er svona eins og það er þá er það bara verkjalyf og áfram gakk.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.