Skoðun

Hrað­braut Þór­dísar Kol­brúnar

Tryggvi Hjaltason skrifar

Fyrir ekki svo löngu flutti ég aftur í mína heimasveit eftir tíu ára viðveru á höfuðborgarsvæðinu. Ég man ennþá þegar ég svaf fyrstu nóttina í nýja húsinu mínu og ég lá í rúminu og ætlaði að fara að setja á mig heyrnartól þegar ég áttaði mig á því að það var algjör þögn, bílaniðurinn sem ég var vanur var horfinn. Ég man hvernig samfélagið umvafði mig og bauð mig hlýlega velkominn heim aftur og ég man að ég fór og keypti í matinn, fór í pósthúsið og til sýslumanns og kláraði það á 25 mínútum og ég hugsaði: „vá ég get loksins stofnað hljómsveitina mína með allan þennan nýja frítíma“. Mikið var gott að vera kominn heim! Fleira átti eftir að koma mér á óvart og það varðaði ákveðna en áberandi þróun sem var og er greinilega að eiga sér stað á landsbyggðinni.

Ég gat tekið starfið mitt í hátækni- og hugverkageiranum með mér og þegar heim var komið rann mér blóðið til skyldunnar að reyna að miðla eitthvað af þeirri þekkingu og tengslum sem ég hafði aflað í áratugs fjarveru minni aftur til landsbyggðarinnar. Ég tók því þátt sem bæði dómari og stuðningsaðili í ýmsum frumkvöðlakeppnum, ég studdi verkefni í fablab-smiðjunum, ég tók sæti í stjórnum á ýmsum nýsköpunar- og hugvitsdrifnum vettvöngum og reyndi að leiðbeina og tengja eftir bestu getu frumkvöðla við fjármagn og mér klárara og betra fólk. Þrjár breytingar eru mér kristaltærar eftir þessa reynslu:

1. Landsbyggðin er að kalla börnin sín heim og í þetta skiptið á þeirra eigin forsendum. Þeim fjölgar nú hratt ár frá ári sem, eins og ég, eru að flytja aftur í heimabyggð sína og geta tekið störf sín og þekkingu með sér. Þetta mun hafa gríðarleg áhrif á sóknartækifæri, lífsgæði og samfélags-strúktúr á landsbyggðinni. Spennandi tímar eru farnir í gang.

2. Landsbyggðin er komin í fljúgandi frumkvöðlagír. Fólk á öllum aldri og með ótrúlegasta bakgrunn, menntað og ómenntað, er að bretta upp ermar og sækja einkafjármagn og styrki og stuðning hins opinbera til að koma af stað smiðjum, aukinni menntun, nýjum fyrirtækjum, rannsóknarverkefnum á margvíslegum skala, frá þangrækt til skógræktar og heilbrigðisþjónustu. Nú þegar eru bæjarfélög byrjuð að uppskera í formi fjölbreyttari grunnstoða í efnahagslífinu, fleiri og áhugverðari starfa og fjölbreyttari áskoranna. Stöðugir atvinnugeirar sem borið hafa byggðir uppi eru einnig að ganga í gegnum ákveðna endurnýjun lífdaga í formi nýrra hugmynda, tækniframfara og sókn inn á nýja markaði. Ó þvílíkir tímar til að búa á landsbyggðinni!

Þriðja breytan sem tók mig smá tíma að átta mig á er að landsbyggðarstelpan og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, virtist vera með puttana á einn eða annan hátt í öllum framangreindum jákvæðum breytingum og þróun. Þórdís hefur stóraukið stuðning við Fablab-smiðjurnar, hún hefur komið á fót milljarða hvatasjóði, Kríu, sem stóreflir fjármögnunarumhverfi nýsköpunar, hún tryggði að sérfræðingar gætu auðveldlega sest að hvar sem er á Íslandi og tekið tengsl sín með sér, hún hefur stutt með beinum styrkjum fjölda frumkvöðlasmiðja, þekkingarsetur og atvinnuhraðla á landsbyggðinni og núna síðast fyrir nokkrum vikum úthlutaði hún styrkfé til fjölda verkefna í gegnum sérstakan landsbyggðar nýsköpunarsjóð, Lóu, fyrstan sinnar tegundar á Íslandi.

Ég kynntist Þórdísi fyrir algjöra tilviljun á fyrri hluta höfuðborgardvalar minnar þegar hún sem aðstoðarmaður þáverandi innanríkisráðherra tók brosandi á móti mér og ég gleymi því seint þegar ég sat á móti henni í ráðuneytinu og hún sagði: „Tryggvi, mér finnst Ísland miklu meira vera land tækifæranna heldur en Bandaríkin. Astæðan fyrir því að ég fór í stjórnmál var svo að ég geti gert mitt allra besta til að tryggja að allir geti upplifað þau tækifæri, að Jón og Gunna á Akranesi eða í Vestmannaeyjum eða Húsavík geti gert sem allra best úr sínum metnaði og ríkið styðji þau í því en flækist samt ekki fyrir“.

Stuttu seinna varð Þórdís ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins þar sem hún hefur látið hendur standa fram úr ermum til að innleiða og gulltryggja Ísland sem land tækifæranna, að leggja þessa hraðbraut inn í framtíðina, fyrir Jón, fyrir Gunnu, fyrir alla.

Höfundur starfar í hugverkageiranum og býr á landsbyggðinni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.