Umfjöllun: ÍBV - Valur 25-28 | Valsmenn fara með þrjú mörk úr Eyjum

Einar Kárason skrifar
Anton Rúnarsson skoraði tíu mörk í Eyjum í kvöld.
Anton Rúnarsson skoraði tíu mörk í Eyjum í kvöld. vísir/bára

Valur vann frábæran sigur á ÍBV í Vestmannaeyjum er liðin mættust í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla í handbolta. Rosaleg dramatík átti sér stað undir lok leiks sem þýðir að Valur er þremur mörkum yfir fyrir síðari leik liðanna.

Eftir jafnar upphafsmínútúr þar sem liðin skiptust á að koma boltanum í netið tóku rauðklæddir gestirnir á rás og komust í þriggja marka forustu um miðjan fyrri hálfleikinn, 7-10. Eyjamenn tóku þá leikhlé sem virtist skila árangri þar sem þeir gerðu sex mörk en fengu einungis tvö á sig og snéru þannig leiknum sér í hag. Jafnræði var svo með liðunum fram að hálfleik og þegar fyrri hálfleik lauk var staðan 14-14 og spennandi 30 mínútur framundan.

Valsarar komu sterkari inn í seinni hálfleikinn og fyrstu fimm mínúturnar var nánast bara eitt lið á vellinum. Eyjamenn skoruðu loks eftir sex mínútna leik en þá höfðu gestirnir skorað þrjú mörk og skoruðu næstu þrjú. Staðan því orðin 15-20. Heimamenn lögðu þó ekki árar í bát frekar en fyrri daginn og söxuðu á forskot Valsmanna hægt og rólega. 

Þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum var eins marks munur, 23-24. Valsarar skoruðu næstu þrjú mörk og róðurinn orðinn erfiður fyrir ÍBV. Dagur Arnarsson minnkaði þá muninn í þrjú mörk áður en dró til tíðinda. Agnar Smári Jónsson, leikmaður Vals, stökk þá fyrir innkast Eyjamanna sem ætluðu sér að sækja hratt. Agnar fékk fyrir það beint rautt spjald og dæmt á sig vítakast. Hákon Daði Styrmisson skoraði úr vítakastinu og allt virtist stefna í tveggja marka sigur Vals. Dramatíkinni var þó ekki lokið þar sem Anton Rúnarsson kórónaði frábæran leik sinn með marki utan af velli þegar um tvær sekúndur voru eftir á klukkunni. 

Lauk leiknum því með þriggja marka útisigri Valsmanna og gæti mark Antons undir lokin reynst mikilvægt þegar í seinni leikinn er komið.

Af hverju vann Valur?

Eftir jafnan fyrri hálfleik byrjuðu gestirnir þann síðari mun betur en Eyjamenn. Þeir náðu fimm marka forustu og ljóst að ÍBV þyrftu að hafa mikið fyrir því að ná einhverju út úr þessum leik. Anton Rúnarsson var stórkostlegur og skoraði tíu mörk og virtist fullur sjálfstrausts í hvert skipti sem hann lét vaða. 

Hverjir stóðu upp úr?

Í liði ÍBV skoraði Hákon Daði sjö mörk úr sjö skotum, þar af fimm úr vítum en Kári Kristján Kristjánsson skoraði fjögur mörk af línunni og Dagur Arnarsson skoraði einnig fjögur mörk. Björn Viðar Björnsson varði átta bolta í marki Eyjamanna.

Anton Rúnarsson var klárlega maður leiksins en hann skoraði eins og áður sagði tíu mörk, úr tíu skotum. Agnar Smári Jónsson skoraði fimm mörk, hvert öðru glæsilegra. Martin Nagy varði tíu skot í markinu.

Hvað gekk illa?

Heimaliðið mun horfa til baka á vondu kaflana í þessum leik og reyna að bæta upp fyrir þá í seinni leik liðanna. Bæði lið misstu mann af velli með rautt spjald. Róbert Sigurðsson, leikmaður ÍBV, fékk sína þriðju brottvísum um miðjan síðari hálfleik og Agnar Smári Jónsson fékk rautt undir lok leiks. Rauða spjald Agnars gæti skipt sköpum þar sem möguleiki er á að hann verði dæmdur í leikbann fyrir brot sitt en það kemur í ljós á næstu dögum. 

Hvað gerist næst?

Það er góð spurning. Valsmenn virðast ógnarsterkir og ljóst er að verðugt verkefni bíður Eyjamanna í Origo höllinni í seinni leik liðanna. Þessi íþrótt er þó algjörlega óútreiknanleg og það getur ýmislegt gerst á sextíu mínútum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira