Handbolti

Gummi Gumm getur orðið bikarmeistari í fyrsta sinn sem þjálfari í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson tók við Melsungen í febrúar 2020. Hann stýrir liðinu ásamt því að vera þjálfari íslenska karlalandsliðsins.
Guðmundur Guðmundsson tók við Melsungen í febrúar 2020. Hann stýrir liðinu ásamt því að vera þjálfari íslenska karlalandsliðsins. getty/Swen Pförtner

Guðmundur Guðmundsson getur orðið bikarmeistari í fyrsta sinn á þjálfaraferlinum þegar Melsungen mætir Lemgo í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar í Hamborg í dag.

Um er að ræða úrslitaleik bikarkeppninnar fyrir tímabilið 2019-20 en ekki náðist að klára hana í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins. Bikarkeppnin fyrir tímabilið 2020-21 var hins vegar felld niður.

Melsungen sigraði Hannover-Burgdorf, 27-24, í undanúrslitum í gær og komst þar með í bikarúrslit í fyrsta sinn í sögu félagsins. Arnar Freyr Arnarsson var ekki á meðal markaskorara hjá Melsungen. Í hinum undanúrslitaleiknum vann Lemgo óvæntan sigur á Kiel, 29-28. Bjarki Már Elísson var markahæstur í liði Lemgo með sex mörk.

Guðmundur hefur verið lengi að og átt afar farsælan feril í þjálfun. Hann á hins vegar enn eftir að verða bikarmeistari á þjálfaraferlinum.

Þegar Guðmundur þjálfaði á Íslandi kom hann liði fjórum sinnum í bikarúrslit. Það gerðist fyrst 1990 en Víkingur tapaði þá fyrir Val, 25-21. Ári seinna komst Víkingur aftur í bikarúrslit en laut í lægra haldi fyrir ÍBV, 26-22.

Árið 1998 kom Guðmundur Fram í úrslit bikarkeppninnar. Frammarar töpuðu þá fyrir Valsmönnum, 25-24, í einum frægasta og umdeildasta bikarúrslitaleik sögunnar.

Guðmundur kom Fram svo aftur í bikarúrslit 2007. Þá tapaði liðið fyrir Stjörnunni með tíu marka mun, 27-17.

Sem leikmaður átti Guðmundur mjög góðu gengi að fagna í bikarkeppninni en hann vann hana fjórum sinnum í röð með Víkingi (1983-86).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×