Skoðun

Vaktavinna = mönnunarvandi

Sandra B. Franks skrifar

Það eru söguleg tímamót að hafa náð fram styttingu vinnuvikunnar, sem mun móta vinnuvænt starfsumhverfi fyrir vaktavinnufólk til framtíðar. Það er því aldrei brýnna en nú að taka höndum saman, hugsa í lausnum og vinna markvisst að því að dæmið gangi upp. Viðamikill þáttur þessa verkefnis er að takast á við rótgróna vinnustaðamenningu og nálgast verkefnið í samstarfi við vinnufélaga og stjórnendur stofnana.

Eins og margsinnis hefur komið fram er markmið með „styttri vinnuviku - betri vinnutíma“ að koma í veg fyrir mönnunarvanda, veikindafjarveru og mikla starfsmannaveltu sem er fylgifiskur álagstengdra þátta í vinnu og óánægju í starfi. Meginmarkmiðið með kerfisbreytingunni er að gera vaktavinnu eftirsóknarverða, þar sem kerfið vinnur með okkur í því að bæta heilsu og líðan þeirra sem vinna á vöktum og starfsumhverfið fjölskylduvænt.

Hlutastarf = hlutalaun

Í aðdraganda gildistöku betri vinnutíma 1. maí síðastliðinn, hjá ríki og sveitarfélögum, ákváðu um 96% starfsfólks í hlutastarfi að auka við sig starfshlutfall. Starfsfólkið er því ekki að taka styttingu á vinnutíma sínum, heldur er það að vinna eins og það gerði áður og er þá vinnuframlagið metið í samræmi við vaktabyrgði. Það þýðir í raun að um að 100% vaktavinna geti verið allt að 80% viðvera fyrir erfiðustu vaktirnar.

Hefði ekkert verið gert til að koma til móts við sjónarmið stéttarfélaga um breytingar á vinnutíma hjá vaktavinnufólki er fyrirséð að mönnunarvandinn hefði versnað. Með breyttu fyrirkomulagi getum við stuðlað að því að fólk velji að vinna á vöktum. Fram til þessa hefur mikill meirihluti vaktavinnufólks, og þá einkum sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar, beinlínis neyðst til að vera í hlutastarfi vegna þess hve þung vaktabyrðin hefur reynst þeim vera.

Mönnunarvandi = fjármagn

Það er ljóst að áralangur mönnunarvandi verður ekki leystur í einni hendingu. Skortur á sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum, hefur verið viðvarandi um langa hríð. Kerfisbreytingin, sem kostar um 4,2 milljarða og gert er ráð fyrir í fjárlögum, er í raun eitt mikilvægasta framfaraskref í verkalýðsbaráttu Íslendinga, og í raun mikilvægasta tækið til að bæta mönnun vaktavinnustétta til lengri tíma litið.

Ávinningur af betri vinnutíma finnum við meðal annars í krafti jákvæðrar og uppbyggilegri umræðu félagsmanna. Einstaka hnökra þarf þó að leysa innan stofnana, sem er úrlausnarefni. Mælingar á framleiðni vinnuafls, gæðum og öryggi þjónustunnar verða settar í gang þegar hæfileg reynsla er komin á betri vinnutíma.

Með samstöðu, samvinnu og samráði allra þeirra sem að þessu verkefni komu náðum við þessu í gegn, og því ber að fagna.

Höfundur er formaður Sjúkraliðafélags Íslands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Taktu tvær

Arnar I. Jónsson,Heiðrún Björk Gísladóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.