Handbolti

Ómar Ingi fór á kostum enn eina ferðina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi skoraði níu mörk í dag. Hann er nú kominn með 197 mörk á tímabilinu og er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar.
Ómar Ingi skoraði níu mörk í dag. Hann er nú kominn með 197 mörk á tímabilinu og er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar. Uwe Anspach/Getty

Ómar Ingi Magnússon og félagar hans í Magdeburg unnu stórsigur þegar þeir heimsóttu Minden í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Ómar Ingi var markahæsti maður vallarins með níu mörk, en lokatölur urðu 35-25 Magdeburg í vil.

Ómar Ingi hafði hægt um sig í fyrri hálfleik og skoraði aðeins þrjú mörk. Leikurinn var nokkuð jafn og staðan 16-15 fyrir Magdeburg þegar flautað var til hálfleiks.

Gestirinir tóku þó öll völd í seinni hálfleik og náðu fljótlega fimm marka forskoti. Þeir tóku fótinn aldrei af bensígjöfinni og unnu að lokum tíu marka sigur. 

Magdeburg er í þriðja sæti deildarinnar með 34 stig, jafn mörg og Flensburg sem situr í öðru sæti. Flensburg hefur þó spilað einum leik minna.

Viggó Kristjánsson og félagar hans í Stuttgart heimsóttu Hannover-Burgdorf einnig í þýsku úrvalsdeildinni í dag. 

Stuttgart náði fjögurra marka forystu um miðjan fyrri hálfleikinn, en heimamenn náðu að snúa taflinu sér í hag fyrir hlé og fóru með 14-11 forystu inn í hálfleikinn.

Viggó og félagar tóku gott áhlaup á lokamínútum leiksins. Þeir skoruðu seinasta mark leiksins sem tryggði þeim jafntefli. Lokatölur 23-23, og Stuttgart situr enn í 14.sæti deildarinnar, stigi á eftir Hannover-Burgdorf. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×