Umfjöllun: Valur - KR 86-89 | Ís­lands­meistararnir í undan­úr­slit

Árni Jóhannsson skrifar
KR-ingar fagna í kvöld.
KR-ingar fagna í kvöld. vísir/bára

KR er komið í undanúrslitin í Domnio's deild karla eftir sigur á Val í oddaleik að Hlíðarenda 86-89. Það er mál manna að sjaldan eða aldrei hafi einvígi í úrslitakeppninni verið jafn ákaflega spiluð en bæði líkami og andi leikmanna fékk að finna fyrir því í einvíginu.

Það var vel viðbúið að það væri skjálfti og stress í mönnum þegar boltanum var kastað í loft upp rúmlega átta á Hlíðarenda í kvöld. Liðunum gekk mjög illa að skora en þegar sjö mínútur voru liðnar var staðan 12-12. Liðin gerðu vel að verjast en KR-ingar voru fyrstir til að komast á skrið og kláruðu fyrsta leikhlutann sterkar en andstæðingar sínir og voru 17-21 yfir þegar fyrsta leikhluta var lokið.

KR-ingar gengu svo á lagið og náðu 9-0 sprett í röð, sem var stærstir sprettur leiksins, náðu 13 stiga forskoti sem þeir létu ekki af hendi lengst af í öðrum leikhluta. Þriggja stiga nýting gestanna reis ásamt því að þeir náðu að stöðva Valsmenn í sínum aðgerðum. Valur náði að laga hlut sinn í leiknum örlítið í lok leikhlutans og þar skipti mestu máli níu stig sem Jordan Rowland setti á töfluna en eins og áður í einvíginu þá var hann í strangri gæslu og voru þetta fyrstu stig hans í leiknum.  Þegar gengið var til búningsherbergja þá var staðan 41-50 gestunum í vil og langt í frá að leikum væri lokið.

Valsmenn mættu af miklum krafti út í seinni hálfleikinn, slógu KR út af laginu í smá stund og náðu að jafna metin í 52-52 þegar um fimm mínútur voru búnar af seinni hálfleik. Miguel Cardoso, Kristófer Acox og Sinisa Bilic leiddu áhlaupið en eftir að því var lokið þá skiptust liðina á að skora það sem eftir var af þriðja leikhluta ásamt því að skipst var á forystu ótt og títt og margoft var jafnt. Þriðja leikhluta lauk í stöðunni 69-69.  Stemmningin í höllinni var rosaleg og maður sá ekki í fljótu bragði hvernig þessu átti eftir að ljúka.

Fjórði leikhluti þróaðist nákvæmlega eins og lokin á þeim þriðja. Liðin skiptus á höggum og þegar ein mínúta lifði af leiknum þá var staðan 81-80 og upphófst lengsta mínúta vetrarins, að ég held, í Íslandsmótinu. KR-ingar náðu að vera örlítið betri í sínum aðgerðum og voru fjórum stigum yfir þegar 23 sekúndur voru eftir en þá fékk Jordan Rowland þrjú vítaskot sem hann setti öll ofan í. Þá var eins stiga munur á liðunum og Valsmenn brutu á KR og Tyler Sabin fékk tvö vítaskot sem fóru niður. Staðan 84-87 fyrir KR og KR-ingar brutu á Rowland áður en innkast var tekið og því þurfti að dæma óíþróttamannslega villu sem þýddi að Rowland fékk tvö vítaskot og Valsmenn boltann aftur. Rowland nýtti vítaskotin en í sókninni eftir vítin þá var braut Bilic klaufalega af sér í sókninni og KR fékk boltann. Tyler Sabin fékk síðan tvö vítaskot sem hann nýtti og Valsmenn fengu einn séns til að jafna metin. Jordan Rowland fékk boltann í hendurnar, hann rann því miður, og skotið sem hann reyndi var víðsfjarri. KR-ingar fögnðuð gríðarlega og eru á leiðinni í undanúrslit þar sem þeir mæta Keflavík.

Afhverju vann KR?

Það er svo lítið á milli þessara liða að það er ekki hægt með góðu móti að segja með mikilli vissu hvað það var. Þeir nýttu sín skot aðeins betur í kvöld og þjálfarinn talaði um í viðtali að tapaðir boltar hafi skipt máli. Þeir líka héldu kannski haus betur á ögurstundu en þetta var tilfinningaþrungin sería. Þvílík skemmtun.

Bestir á vellinum?

Ég mun ekki taka neinn út sem bestan á vellinum en þetta var frábær leikur og margir sem lögðu sitt af mörkum til að svo væri. Tyler Sabin var stigahæstur KR-inga með 26 stig á meðan Jordan Rowland skoraði 19 stig fyrir Valsmenn. Þórir Þorbjarnarson skilaði mjög góðu framlagi af bekk sinna manna ásamt því að Jakob Sig. skilaði miklu varnarframlagi. Hjá Val átti Kristófer Acox góðar rispur sem og Pavel og Miguel Cardoso. Það var því miður ekki nóg í kvöld.

Tölfræði sem vakti athygli.

Ég ætla að taka hérna fram að það vekur athygli mína að Rowland hafi verið stigahæstur sinna manna en vörnin á hann hefur verið rosaleg hingað til. Kappinn náði að losa sig örlítið betur en oft áður og náði að setja skot sín niður.

Hvað næst?

Valsmenn eru komnir í sumarfrí og geta farið að skipuleggja næsta tímabil sem er ekki langt undan. KR-ingar þurfa að fara í heitu og köldu pottana því þeirra bíður einvígi við deildarmeistara Keflavíkur sem hafa beðið óþreyjufullir í næstum viku eftir því að þessu einvígi ljúki. Sú rimma verður ekki mikið léttari fyrir KR-inga en þeir eru með gott lið og geta rúllað á mörgum mönnum.

Darri: Maður er bara meyr

Þjálfari KR þakkar stuðningsmönnum fyrir vel unnin störfVísir/Bára

„Það er frábært að hafa klárað þetta en auðvitað var þetta tilfinningaþrungið en við þurfum að vera fljótir að losa okkur við það og byrja að undirbúa okkur undir næsta verkefni“, sagði sáttur Darri Freyr Atlason þjálfari KR eftir að hafa lagt Val að velli í oddaleik í átta liða úrslitum Dominos deildar karla.

Darri var spurður að því næst hvað KR gerði rétt til að klára einvígið í dag.

„Það sem skipti máli á milli leikja var breytingin á töpuðum boltum. Ég þarf að gefa Herði Tulinius hrós sem hefur verið að vinna með okkur í tölfræðigreiningu á leikjunum allt tímabilið. Þar var augljós munur sem við gátum einbeitt okkur að og þvingað þá í erfiðar sendingar til dæmis og hvernig við gátum passað upp á boltann meira. Ég held að það hafi skipt mestu máli.“

Þá snúum við okkur að næsta einvígi sem er á móti Keflavík og var Darri spurður hvernig hann sæi það fyrir sér og hvort hann væri byrjaður að hugsa út í það.

„Það eru svona fimm sekúndur síðan ég byrjaði að hugsa út í það“, sagði Darri og hló og hélt áfram „Það er bara liðið sem er búið að vera best allt tímabilið og ekkert smá verðugur mótherji sérstaklega þar sem við erum að koma úr svona seríu. Þeir spila allt öðruvísi en Valur en við verðum bara tilbúnir og setjum fram okkar sterkasta fót.“

Darri var spurður út í það hvort hann hefði áhyggjur af því hversu mikið hans menn settu, bæði líkamlega og andlega, í einvígið á móti Valsmönnum.

„Nei nei, þessir strákar hafa séð þetta allt saman áður og hugsa vel um sig. Þeir eru í góðu standi og vonandi, sjö níu þrettán, heldur það áfram eins og í allan vetur. Svo getum við spilað níu til tíu mönnum ef við viljum vera svo djúpir og erum með gaura sem eru klárir og það verða allir klárir.“

Að lokum var Darri spurður út í þátt stuðningsmanna KR en þeir létu vel í sér heyra allan tímann og hjálpuðu KR augljóslega að komast yfir línuna.

„Ég sagði það eftir síðasta leik að það hafi verið leiðinlegt að geta ekki klárað þetta á heimavelli þar sem þeir höfðu áhrif á þessa seríu. Þeir héldu því áfram í kvöld og maður er bara meyr eftir að fá svona stuðning og frábært að fá að gera þetta því þetta var öðruvísi einvígi fyrir hverfið.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira