Körfubolti

Russell Westbrook endaði kvöldið snemma, meiddur og í poppkornssturtu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook haltrar meiddur af velli í tapi Washington Wizards í nótt.
Russell Westbrook haltrar meiddur af velli í tapi Washington Wizards í nótt. AP/Matt Slocum

Þetta var ekki gott kvöld fyrir Washington Wizards liðið sem er komið 2-0 undir á móti Philadelphia 76ers í úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta. Utah Jazz jafnaði metin á móti Memphis og New York Knicks jafnaði metin á móti Atlanta.

Philadelphia 76ers vann öruggan 120-95 sigur á Washington Wizards þar sem félagarnir Joel Embiid og Ben Simmons voru báðir með 22 stig. Simmons var nálægt þrennu með 9 fráköst og 8 stoðsendingar.

Bradley Beal skoraði 33 stig fyrir Washington og var langstigahæstur. Russell Westbrook skoraði 10 stig, gaf 11 stoðsendingar og tók 6 fráköst áður en hann þurfti að yfirgefa leikinn snemma.

Westbrook meiddist á hægri ökkla og yfirgaf leikinn þegar tíu mínútur voru eftir. Þegar hann haltraði út úr salnum þá tók einn áhorfandi sig til og sturtaði yfir hann poppkorni. Westbrook trompaðist og þurfti nokkra öryggisverði til að halda honum.

Áhorfendanum var vísað á dyr stuttu síðar en Westbrook var mjög ósáttur í leikslok. „Ef ég segi alveg eins og er þá er þetta komið út í algjöra vitleysu ekki síst varðandi mig. Öll þessi vanvirðing og allir þessir áhorfendur sem gera bara það sem þá langar til að gera. Menn verða að fara að passa betur upp á NBA leikmennina,“ sagði Russel Westbrook mjög pirraður.

Hann fékk líka mikinn stuðnings frá öðrum NBA stjörnum á samfélagsmiðlum sem var líka misboðið.

Útlitið var ekki bjart um tíma þegar New York Knicks liðið var þrettán stigum undir í hálfleik og á góðri leið með að lenda 2-0 undir á móti Atlanta Hawks. Knicks liðið átti hins vegar góðan seinni hálfleik og jafnaði einvígið með 101-02 sigri.

Derrick Rose kom inn í byrjunarliðið fyrir seinni hálfleikinn og leiddi endurkomuna. Rose skoraði 26 stig og tókst á kveikja á Julius Randle sem skoraði 13 af 15 stigum sínum í seinni hálfleik. Reggie Bullock var líka með 15 stig. Trae Young skoraði 30 stig fyrir Atlanta og þeir Bogdan Bogdanovic og De'Andre Hunter voru með 18 stig hvor.

Stórleikur Ja Morant dugði ekki sem átti möguleika að komast í 2-0 á móti Utah Jazz. Morant skoraði 47 stig en Utah tókst samt að vinna leikinn 141-129 og jafna metin í 1-1. Næstu tveir leikir eru í Memphis.

Donovan Mitchell missti af fyrsta leiknum vegna meiðsla en kom sterkur til baka og skoraði 25 stig fyrir Utah á aðeins 26 mínútum. Rudy Gobert var með 21 stig, 13 fráköst og 4 varin skot. Mike Conley bætti síðan við 20 stigum og 15 stoðsendingum.

Mike Conley missti aftur á móti stigametið hjá Memphis til Ja Morant sem varð um leið fyrsti leikmaðurinn í sögu úrslitakeppni NBA til að skora samanlagt 71 stig í fyrstu tveimur leikjum sínum í úrslitakeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×