Skoðun

Tölum um of­beldi í skóla­starfi

Anna María Gunnarsdóttir og Ragnar Þór Pétursson skrifa

Formaður Félags grunnskólakennara ritar í gær grein þar sem hvatt er til þess að hið flókna og viðkvæma mál, ofbeldi í skólastarfi, sé uppi á borðum. Hún bendir á að staða kennara sem verða fyrir ofbeldi sé mjög flókin og geti leitt til þess að viðkomandi hrökklist úr starfi. Við viljum taka undir hvatningu formanns FG um umræðu og gera tilraun til að halda henni áfram.

Skólinn er samfélag

Skóli er samfélag með öllum þess kostum og göllum. Hann er meira að segja á stundum afar flókið og krefjandi samfélag. Bæði vegna margvíslegra hagsmuna sem erfitt getur reynst að samræma en einnig vegna þess að skólinn er beinlínis það samfélag sem börnum og ungmennum er ætlað að tilheyra á leið sinni til samfélagsvitundar, sjálfsstjórnar og félagsþroska. Í slíku samfélagi gengur á ýmsu. Á þetta hefur Kennarasamband Íslands lagt áherslu í skólastefnu sinni en þar segir meðal annars: „Meginmarkmið skólastarfs er að stuðla að menntun, velferð, vellíðan og þroska allra nemenda, efla sjálfstraust, jákvæða sjálfsmynd og fjölþætta lífsleikni í samræmi við stefnu um skóla og menntun fyrir alla.“

Burðarhlutverk kennara og stjórnenda

Öll erum við í skólasamfélaginu til að læra en til sumra eru gerðar meiri kröfur en annarra. Árið 2019 urðu ákveðin tímamót þegar farið var að gera kröfur um ákveðna hæfni í starfi kennara og skólastjórnenda í stað þess að láta prófskírteini nægja. Hinar almennu hæfnikröfur eru afar metnaðarfullar og snúast einmitt að miklu leyti um viðurkenningu á hinum flókna veruleika skólanna og þeim erfiðleikum sem alla tíð hafa verið til staðar en við höfum ekki alltaf verið tilbúin að ræða.

Kennarar og stjórnendur skulu hafa velferð og virðingu að leiðarljósi í störfum sínum, leggja sitt af mörkum til að skapa öruggt skólaumhverfi og jákvæðan skólabrag. Þá er lögð áhersla á farsælt samstarf við foreldra og forsjáraðila auk þess sem hver einasti kennari skólans hefur það hlutverk að vera leiðtogi í því lærdómssamfélagi sem hann tilheyrir. Sérstaklega er síðan kveðið á um mikilvægi jafnréttis og lýðræðis og þess að samfélagsleg ábyrgð sé efld meðal nemenda.

Þessar kröfur eiga ekki að vera aðeins orð á blaði. Hugmyndafræðin um lýðræðislegt lærdómssamfélag er grunnur skólastarfs í landinu. Það þýðir ekki að í skólum megi aðeins vera gallalaust fólk. Það þýðir að við þurfum að vera meðvituð um vandamálin og skorast ekki undan þegar finna þarf leiðina fram á veginn.

Við berum þessa ábyrgð saman

Í þeirri lýsingu á skólum sem fram kemur í lögum felst að útilokað er að smætta viðfangsefni ofbeldis niður á einstaka hópa eða gera einhliða kröfur um ábyrgð. Við berum ábyrgð á þessu saman. Það, að þú kunnir að hafa það ágætt, tekur ekki af þér ábyrgð á því að leggja þitt af mörkum til þess að hið sama gildi um önnur.

Við höfum séð það á þessu erfiða hamfaraári hve samfélög eiga mikið undir öflugum faghópum og samstarfi þeirra. Líklega hefur aldrei verið meiri ástæða til að fyllast stolti yfir því að tilheyra eða hafa tilheyrt fagstétt skólafólks. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að allt sé fullkomið enda er ófullkomnunin að einhverju leyti meginviðfangsefni skólastarfs.

Verum heiðarleg

Við þurfum því að vera heiðarleg, fagleg og hreinskilin og horfa ekki aðeins í eigin barm heldur standa undir þeirri ábyrgð að vera virk í að skapa það öryggi og þá virðingu sem einkenna skal skólasamfélagið. Við eigum meðal annars að vera óhrædd við að líta í eigin barm og vera tilbúin að horfast í augu við okkar eigin fordóma. Það eru ekki margir áratugir síðan skólakerfið í heild sinni taldi rétt og eðlilegt að flokka börn og ungmenni eftir yfirborðskenndum þáttum og skapa þeim afar misjafnar námsaðstæður á grundvelli þess.

Slíkt skipulag kann að hafa auðveldað skólastarf og þjónað einhverjum tilgangi en það er fullkomlega óefað að þar brást samfélagið fjölda barna. Að sjálfsögðu felur það ekki í sér að skólafólk hafi verið siðferðilega brogað eða vondir fagmenn – það þýðir aðeins að við vorum ekki komin lengra á samfélagslegri leið okkar til jafnréttis, lýðræðis og virðingar. Það er einmitt brautryðjendum okkar í skólamálum að þakka á hvaða leið við erum nú og hvert við erum þó komin. Það er okkar að halda kyndlinum áfram á lofti og þora að lýsa inn í dimmu hornin.

Við erum öll fólk. Við þurfum að lifa með því að gallar fylgja fólki. Við þurfum að horfast í augu við okkur sjálf, fordóma okkar og aðra bresti, og gera það sem við getum til að standa saman um grunngildi skólastarfs og standa undir þeim hæfnikröfum sem til okkar eru gerðar. Slíkt gerum við aldrei ein eða með því að kljúfa okkur í fylkingar þar sem við gerum lítið úr eigin brestum en mikið úr brestum annarra. Við gerum það með því að standa undir nafni sem fagfólk sem gerir kröfur til sín og annarra og lætur þjáningu allra í lærdómssamfélaginu sig varða. Skiptir þá ekki máli hvort það er nemandi sem upplifir óvissu og ótta vegna vanþekkingar og fordóma skólasamfélagsins um hinseginmál, kennari sem mætir virðingarleysi foreldra eða áreitni af hálfu samstarfsfólks, foreldrar sem mæta fordómum, skólastjórnandi sem lendir milli steins og sleggju eða skólaliði sem mætir útskúfun eða jafnvel rasisma vegna uppruna síns.

Við erum öll samábyrg. Þar eru engin undanskilin. Við getum ekki látið sem ekkert sé. Við vitum öll að margvíslegur vandi er til staðar sem taka þarf á. Ef skólakerfið lýsir því einhvern tíma yfir að ofbeldi og annar vandi sé ekki til staðar lengur getur það aðeins orðið vegna þess að búið sé að loka augunum.

Ef vandi er til staðar

Fagfólk þarf fagleg vinnubrögð. Við viljum því að lokum benda á viðbragðsáætlanir og ferla sem finna má á heimasíðu Kennarasambands Íslands. Þar má finna greinargóðar leiðbeiningar um það hvernig taka skal á erfiðum málum sem ógna öryggi í skólastarfi. Þá er hægt að hafa samband við sérfræðing KÍ í vinnuumhverfismálum ef óskað er eftir aðstoð.

Anna María Gunnarsdóttir er varaformaður KÍ og Ragnar Þór Pétursson formaður KÍ.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×