Körfubolti

Hótar að sniðganga Ólympíuleikana eftir alhvíta kynningarmynd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liz Cambage og myndin sem hún er ósátt við.
Liz Cambage og myndin sem hún er ósátt við. getty/ethan miller/jockey

Liz Cambage, leikmaður átralska körfuboltalandsliðsins, hefur hótað að sniðganga Ólympíuleikana í Tókýó í sumar vegna skorts á fjölbreytileika á kynningarmynd fyrir leikana.

Á myndinni, sem er frá styrktaraðilanum Jockey, sjást átta fulltrúar Ástralíu á Ólympíuleikunum og Ólympíumóti fatlaðra, fjórir menn og fjórar konur, öll hvít á hörund.

Cambage vakti athygli á því á Instagram að enginn íþróttamaður sem er dökkur á hörund væri á kynningarmyndinni.

„Ef ég hef sagt það einu sinni hef ég sagt það milljón sinnum. Hvernig á ég að standa fyrir land sem stendur ekki fyrir mig,“ skrifaði Cambage við myndina. 

Hún gagnrýndi einnig aðra mynd af Ólympíuförum sem ruðningskappinn Maurice Longbottom, sem er af ætt frumbyggja, var meðal annars á. „Gervibrúnka er ekki fjölbreytni,“ skrifaði Cambage og sagði svo að ástralska ólympíusambandið gerði í því að fela svart íþróttafólk.

Í kjölfar ummæla Cambages sendi ástralska ólympíusambandið frá sér yfirlýsingu þar sem það tók undir gagnrýni körfuboltakonunnar og lofaði fleiri myndum af svörtu íþróttafólki. Það sagðist þó hafa gert ýmislegt til að hampa því og hafa það sýnilegt.

Fyrrverandi þjálfari Cambages í ástralska landsliðinu, Tom Maher, gagnrýndi ummæli hennar.

„Var samkynhneigður Ólympíufari á myndinni? Var einhver af asískum uppruna? Ég meina, hvar endar þetta?“ sagði Maher. „Ef ég væri þjálfari gæfi ég ekki mikið fyrir þessar hótanir. Ef hún vill vera með, getur hún verið með. En ef hún ætlar að sniðganga leikana óska ég henni bara góðs gengis.“

Cambage vann brons með ástralska landsliðinu á Ólympíuleikunum í London 2012. Hún keppti einnig á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.

Cambage leikur með Las Vegas Aces í WNBA-deildinni í Bandaríkjunum. Hún á metið yfir flest stig í einum leik í deildinni. Hún skoraði 53 stig gegn New York Liberty fyrir þremur árum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.