Körfubolti

Öflugur sigur Blika og Fjölnir burstaði KR

Anton Ingi Leifsson skrifar
Breiðablik vann góðan sigur á heimavelli í kvöld.
Breiðablik vann góðan sigur á heimavelli í kvöld.

Þrír leikir fóru fram í Domino’s deild kvenna í kvöld. Haukar höfðu betur gegn Keflavík, Fjölnir burstaði KR og Breiðablik vann góðan sigur á Skallagrím á heimavelli.

Fjölnir burstaði botnlið KR á heimavelli en eftir tapið er KR fallið. Fjölnir skoraði 105 stig gegn 67 stigum Vesturbæjarliðsins. KR er fallið en Fjölnir er í fjórða sætinu með 26 stig.

Stigaskorunin dreifðist ansi vel hjá Fjölnisliðinu. Ariel Hearn gerði 21 stig, tók tíu fráköst og gaf tíu stoðsendingar og Lina Pikciuté var með 22 stig og sex fráköst.

Í liði KR var Annika Holopainen með nítján stig og sex fráköst og Taryn Ashley Mc Cutcheon gerði þrettán stig, tók sex fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Breiðablik er búið að jafna Skallagrím að stigum í fimmta og sjötta sætinu eftir sigur í leik liðanna í Kópavogi í kvöld. Lokatölur 82-72.

Jessica Kay Loera var frábær í Blikaliðinu. Hún gerði 28 stig, tók fimm fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Iva Georgieva kom næst með nítján stig, tók átta fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Keira Breeanne Robinson var stigahæst hjá gestunum með 20 stig. Að auki tók hún ellefu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Embla Kristínardóttir kom næst með átján stig og níu fráköst.

Haukar unnu svo góðan sigur á Keflavík og eru komnir upp í annað sætið. Síðasta umferð deildarkeppninnar fer fram á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×