Umfjöllun: Stjarnan - Njarðvík 82-70 | Njarðvíkingar sitja á botninum

Sindri Sverrisson skrifar
Haukar - Njarðvík. Dominos deild karla vetur 2021 körfubolti KKÍ
Haukar - Njarðvík. Dominos deild karla vetur 2021 körfubolti KKÍ Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Aðeins þrjár umferðir eru til stefnu og ljóst að Njarðvík þarf að ná í stig á lokasprettinum en liðið á eftir heimaleiki við Þórsliðin og útileik við ÍR. Innbyrðis úrslitin gegn Hetti og Haukum valda því að þó að þau séu jöfn Njarðvík eru Njarðvíkingar neðstir.

Stjörnumenn sýndu engan stjörnuleik en gerðu það sem þurfti og frestuðu aðeins deildarmeistarafögnuði Keflvíkinga sem geta þó tryggt sér titilinn annað kvöld. Stjarnan komst upp fyrir Þór Þorlákshöfn og ætlar sér að halda 2. sætinu fyrir úrslitakeppnina.

Stjarnan byrjaði leikinn vel og hinn 17 ára gamli Orri Gunnarsson nýtti tækifærið á upphafsmínútunum til að setja niður fimm stig. Njarðvík, með Antonio Hester fremstan í flokki, barðist þó vel fyrir sínu og staðan var jöfn eftir fyrsta leikhluta, 19-19.

Leikurinn var áfram jafn í öðrum leikhluta jafnvel þó að Njarðvíkingar færu ansi illa með skotin sín en þeim var refsað á lokamínútunni með þristum frá Orra og Mirza Sarajlija, sem setti niður fimm þrista í fyrri hálfleiknum. Eftir að leikurinn hafði verið í járnum allan tímann var munurinn því sjö stig þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik, 42-35.

Arnþór skoraði loks þegar mest lá við

Þegar seinni hálfleikur hófst var Njarðvík komin í fallsæti, með sigri Hauka á Tindastóli. Ólíklegt er að þær fréttir hafi náð eyrum Njarðvíkinga en þó virtust þeir enn staðráðnari en áður í að bíta frá sér. Logi Gunnarsson setti niður fallegan þrist og minnkaði muninn í sex stig en Gunnar Ólafsson, sem átti flottan leik fyrir Stjörnuna, svaraði því strax með því að keyra í bakið á Njarðvíkingum og setja niður körfu og víti að auki.

Munurinn var níu stig fyrir lokaleikhlutann en þar náði Njarðvík aftur áhlaupi og hleypti fljótt mikilli spennu í leikinn. Ólafur Helgi Jónsson skoraði þriggja stiga körfu og stal svo boltanum af Hlyni Bæringssyni sem var ólíkur sjálfum sér á löngum köflum í leiknum.

Þar með var munurinn kominn niður í tvö stig og enn fimm mínútur eftir.

Arnþór Freyr Guðmundsson hafði ekki náð að setja niður eitt einasta skot þegar hann skoraði þriggja stiga körfu þegar mest lá við, og jók muninn í 75-70 þegar þrjár mínútur voru til stefnu. Hlynur, sem að sama skapi hafði mjög hægt um sig framan af leik, bætti við öðrum þristi og þar með var björninn unninn því enda þótt Njarðvíkingar hafi náð upp hörkuvörn þá gekk sóknarleikurinn einfaldlega ekki nógu vel.

Af hverju vann Stjarnan?

Það eru mikið meiri gæði í Stjörnuliðinu og það skiptir ekki máli þó að það virðist vanta einhverja stemningu og gleði í mannskapinn. Það dugði liðinu að lykilmenn næðu að setja saman tvo góða leikhluta og það var ekkert fát á mönnum þó að Njarðvík næði góðu áhlaupi í síðasta leikhlutanum, enda svo sem minna í húfi fyrir Stjörnumenn.

Hverjir stóðu upp úr?

Gunnar Ólafsson stóð upp úr og sýndi jafnan og góðan heildarleik. Hann setti niður 16 stig og tók fimm fráköst. AJ Brodeur átti fullt í fangi með Antonio Hester og skoraði aðeins fjögur stig í fyrri hálfleik en skilaði að lokum flottum tölum; 16 stigum og 13 fráköstum.

Hjá Njarðvík var Mario Matasovic bestur en hann skoraði 10 stig og tók 9 fráköst, og Rodney Glasgow hitti ágætlega úr skotunum sínum og endaði með 14 stig.

Hvað gekk illa?

Heilt yfir gekk sóknarleikur Njarðvíkinga einfaldlega ekki nógu vel og skotin voru oft úr erfiðum stöðum.

Maciej Baginski var mjög duglegur að reyna og gott að menn óttist ekki að taka ábyrgð en skotin hans heppnuðust illa og stundum mjög illa. Ef hann hefði náð að sýna töfrana sína hefði leikurinn getað endað á annan veg fyrir Njarðvík.

Tómas Þórður Hilmarsson skoraði sitt eina stig fyrir Stjörnuna af vítalínunni, tapaði boltanum þrisvar og kom sér í villuvandræði, meðal annars með óþarfa tæknivillu.

Hvað gerist næst?

Njarðvík tekur á móti Þór frá Akureyri á sunnudaginn í afar mikilvægum slag og Stjarnan sækir vini sína í ÍR heim á mánudagskvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira