Körfubolti

Sjá loksins til sólar í fyrsta sinn í áratug

Sindri Sverrisson skrifar
Chris Paul er einn af þeim sem hafa komið Phoenix Suns í toppbaráttu eftir eyðimerkurgöngu.
Chris Paul er einn af þeim sem hafa komið Phoenix Suns í toppbaráttu eftir eyðimerkurgöngu. AP/Matt York

Línur eru sífellt að skýrast varðandi úrslitakeppnina í NBA-deildinni í körfubolta. Eftir úrslit næturinnar er ljóst að Phoenix Suns leika í úrslitakeppninni í fyrsta sinn í rúman áratug.

Þó að liðin eigi um 10 leiki eftir hvert þá hafa núna fjögur lið tryggt sér sæti í úrslitakeppninni. Brooklyn Nets og Philadelphia 76ers eru efst í austurdeildinni, og Utah Jazz og Phoenix í vesturdeildinni, með nægt forskot á liðin í 7. sæti í hvorri deild. Sex efstu liðin í hvorri deild fara beint í úrslitakeppnina en lið í 7.-10. sæti leika í umspili um tvö sæti.

Phoenix vann LA Clippers 109-101 í nótt og þar með er ljóst að Phoenix leikur í úrslitakeppninni í fyrsta sinn síðan árið 2010. Devin Booker var þá 13 ára og Deandre Ayton 11 ára en Chris Paul, sem skoraði 28 stig í sigrinum á Clippers, var aftur á móti þegar orðinn NBA-stjarna þá. Booker skoraði 21 stig.

„Við erum ekki búnir að fullnægja okkar markmiðum. Þetta er ekki nóg,“ sagði Monty Williams, þjálfari Phoenix.

Þegar Williams tók við Phoenix fyrir tveimur árum hafði liðið tapað 63 leikjum og unnið aðeins 19 leiktíðina á undan. Liðið hafði um árabil verið meðal þeirra neðstu í vesturdeildinni. 

Nú er öldin önnur, sigurinn á Clippers var kærkominn eftir tvö töp í rimmum liðanna í vetur, og Phoenix gæti átt eftir að spila marga leiki í úrslitakeppninni í sumar.

Úrslitin í nótt:

  • Cleveland 104-109 Orlando
  • Philadelphia 127-83 Atlanta
  • Washington 116-107 LA Lakers
  • Boston 120-111 Charlotte
  • New York 113-94 Chicago
  • Miami 116-111 San Antonio
  • Memphis 109-130 Portland
  • Denver 114-112 New Orleans
  • Phoenix 109-101 LA Clippers
  • Sacramento 105-154 Utah
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×