Körfubolti

Bjarki: Gaman að sjá Jordan Roland í nærmynd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jordan Roland hefur komið eins og stormsveipur inn í Domino's deildina.
Jordan Roland hefur komið eins og stormsveipur inn í Domino's deildina. vísir/hulda margrét

Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, sagði að vörn Vals hefði verið of öflug fyrir sína menn í kvöld.

Valur vann leikinn, 99-68, og hélt Þór í aðeins 39 stigum í síðustu þremur leikhlutunum.

„Valsmenn spiluðu frábæra í vörn í dag og fá hrós fyrir það. Þeir stóðu sig virkilega vel. Þetta er auðvitað frábært lið og vel mannað og gaman að sjá þennan Jordan Roland í nærmynd. Þetta er flottur spilari. Valsliðið er líklegt til mikilla afreka,“ sagði Bjarki við Vísi eftir leik.

Umræddur Roland bauð ekki upp á sömu flugeldasýninguna og oft áður en skilaði samt 24 stigum. Vörnin var þó lykilinn að sigri Vals.

„Valsmenn ýttu okkur út úr því sem við vildum gera. Þeir eru hoknir af reynslu og sýndu frábæran varnarleik,“ sagði Bjarki.

Hann vonaðist að sjálfsögðu eftir endurkomu frá sínum mönnum í seinni hálfleik þótt vonin hafi verið veik.

„Þetta var langsótt. Við horfðum líka í stigamuninn. Við unnum fyrri leikinn með níu stiga mun og reyndum að gera atlögu að því að minnka þetta undir lokin,“ sagði Bjarki.

Þór hefur nú tapað tveimur leikjum í röð og það illa. En óttast Bjarki að missa af úrslitakeppninni?

„Jájá, alveg eins. En það er bara Höttur á fimmtudaginn og við sjáum bara til þegar það er búið að telja upp úr hattinum í lokin. Það er gott að það sé stutt á milli þegar illa gengur,“ sagði Bjarki að lokum.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×