Körfubolti

Skallagrímur, Fjölnir og Haukar byrja af krafti

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mikilvægur sigur Hauka í kvöld.
Mikilvægur sigur Hauka í kvöld. vísir/vilhelm

Skallagrímur vann ansi öflugan heimasigur á Keflavík í kvöld er Domino's deild kvenna fór aftur af stað. Haukar gerðu góða ferð í Stykkishólm og Fjölnisstúlkur unnu í Kópavogi.

Skallagrímur vann tólf stiga sigur á Keflavík en umferðin í kvöld var sú fyrsta eftir kórónuveiruhlé. Lagði Skallagrímur grunnin að sigrinum með frábærum þriðja leikhluta.

Embla Kristínardóttir skoraði þrettán stig, tók sjö fráköst, gaf fjórar stoðsendingar og var með alls 23 framlagsstig í liði Skallagríms. Nikita Telesford kom næst með sautján stig, níu stoðsendingar og 21 í framlag.

Anna Ingunn Svansdóttir var stigahæst hjá Keflavík með 27 stig en Daniela Wallen Morillo skoraði tuttugu stig ásamt því að taka tuttugu fráköst og gefa sjö stoðsendingar.

Keflavík er í öðru sætinu með 24 stig en Skallagrímur er í fimmta sætinu með fjórtán stig.

Haukar gerðu góða ferð í Stykkishólm þar sem Hafnarfjarðarliðið vann þrettán stiga sigur, 92-79, á heimastúlkum í Snæfell.

Bríet Sif Hinriksdóttir var stigahæst í Haukaliðinu með tuttugu stig en Alyesha Lovett skilaði sautján stigum, níu fráköstum og fimm stoðsendingum.

Emese Vida var stigahæst hjá heimaliðinu með tuttugu stig og sextán fráköst auk þess að gefa fimm stoðsendingar en næstar komu Haiden Denise Palmer og Tinna Guðrún Alexandersdóttir með sautján stig hvor.

Haukar eru nú með 24 stig, líkt og Keflavík og Valur - en leikur Vals og KR er í gangi, en Snæfell er í næst neðsta sæti deildarinnar.

Fjölnir sótti tvö góð stig í Kópavoginn en lokaniðurstaðan varð tíu stiga munur, 79-69. Leikurinn var jafn og spennandi í raun annan leikinn.

Jessica Kay Loera var stigahæst í liði Breiðabliks með nítján stig og sex stoðsendingar en hæst í framlagi var Isabella Ósk Sigurðardóttir með sex stig og fjórtán fráköst.

Í liði Fjölnis var það Ariel Hearn sem dró vagninn með 25 stig, átján fráköst og sex stoðsendingar. Lina Pikciuté bætti við 21 stigi og þrettán fráköstum.

Fjölnir er í fjórða sætinu á meðan Breiðablik er í því þriðja neðsta.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.