Leikjavísir

Evil Genius 2: Það er erfitt að vera illur en samt gaman

Samúel Karl Ólason skrifar
Stundum þurfa illir snillingar bara að skjóta fólk.
Stundum þurfa illir snillingar bara að skjóta fólk. Rebellion

Ég get með sanni sagt að ég hafi beðið leiksins Evil Genius 2: World Domination lengi. Jafnvel löngu áður en framleiðsla leiksins var tilkynnt, var ég byrjaður að bíða. Það er því við hæfi að stór hluti leiksins fari í að bíða.

Fyrri leikurinn, kom út árið 2004 og ég hef spilað hann mikið í gegnum árin. Eins og þá gefst spilurunum nú tækifæri á að setja sig í spor Dr, No, Dr. Evil, Auric Goldfinger, Ernst Stavro Blofeld og annarra illra snillinga, etja kappi við ofurnjósnara heimsveldanna og leggja undir sig heiminn.

Til þess þarf að byggja upp bækistöð, ræna peningum, fólki, listmunum og allskonar dóti og þar að auki verja bækistöðina gegn útsendurum réttvísinnar.

Tilfinningar mínar gagnvart EG2 eru blendnar. Það er margt mjög gott við þennan leik og mér þykir hann að mestu skemmtilegur og fyndinn. Nokkrir hlutar hans, sem eru í sannleikanum sagt tilkomnir vegna slæmrar hönnunar, draga hann þó verulega niður.

Eitt það helsta sem ég hef haft út á upprunalega leikinn að setja í gegnum árin er hvað hann getur verið langdreginn. Það sama má segja um EG2. Jafnvel þó að hægt sé að láta tímann ganga hraðar fyrir sig, sem er gífurlega mikill kostur.

Húmorinn í fyrirrúmi

Það sem einkennir EG-leikina báða hvað mest er húmor. Leikirnir eru í teiknimyndastíl og það finnst mér við hæfi og koma vel út. Þá er búið að leggja aðeins meiri áherslu á sögusköpun. Sem er skemmtilegt. Snillingarnir og aðrar persónur eru talsettar og það er gaman að fá meiri skilning á hvað keyrir þá áfram í viðleitni þeirra til að eyða heiminum.

Til að eyða heiminum þarf þó að skoða heiminn.

Hörmuleg hönnun

Spilarar verja miklum tíma í að senda skósveina sína út í heiminn til að stela peningum og munum, finna fólk til að ræna og leysa önnur verkefni. Þetta gerist allt saman á heimskortinu og í stuttu máli sagt, þá þoli ég ekki þann hluta leiksins.

Heimskortið þarfnast mikillar endurhönnunar.

Heimskort EG2 þarfnast smá endurhönnunar. Maður eyðir fáránlega miklum tíma í að leita að aðgerðum þar.Rebellion

Hér að ofan má sjá hvernig heimskortið lítur út. Á aðalskjá leiksins er hnappur sem færir mann á heimskortið og á þeim hnappi er oft tala sem sýnir hve margir skósveinar þínir eru verkefnalausir.

Það virðist þó ekki vera nokkur leið til að finna þá skósveina í fljótu bragði. Þess vegna fer fáránlega mikill tími í að vafra um kortið og leita að þeim svæðum.

Þá er oft asnalega erfitt að sjá mun á verkefnum sem maður þarf að velja þarna og endar maður oftar en ekki að smella á haug af þeim, áður en maður finnur það sem maður er að leita að.

Heimskortið er hræðilega hannað og hananú!

Aldrei nóg af skósveinum

Ég hef líka komist að því að þó skósveinar séu endurnýjanleg auðlind er aldrei nóg til af þeim. Þeir deyja við það að útvega manni peninga á heimskortinu, þeir þurfa þjálfun til að verða verðir, vísindamenn og þjónar og þeir deyja í hrönnum þegar ofurnjósnarar mæta á vettvang.

Ofurnjósnararnir eru í stuttu máli sagt óþolandi, sem er oftar en ekki jákvætt, þar sem þeir eiga að vera óþolandi.

Þeir eru nokkrir. Ein þeirra birtist stundum í gullhvelfingunni manns, með hópi þjófa og ræna mann. Hún er pirrandi. Ein mætir með stóra sleggju og bakpoka fullan af sprengjum. Hún er líka pirrandi. Svo er annar sem mætir og er ósýnilegur. Sá reynir að laumast um og planta sönnunargögnum gegn manni, sem aðrir eiga svo að finna.

Svo er annar, sem er frá Suður-Ameríku og eðli málsins samkvæmt, þá er hann glímukappi.

Ofur-útsendarar eru fáránlega þreytandi, enda eiga þeir væntanlega að vera það.Rebellion

Gaman að byggja bækistöðvar

Endurspilunargildi er töluvert meira en í gamla leiknum. Hægt er að velja milli fjögurra snillinga, sem hafa mismunandi sögu og þar að auki er hægt að velja á milli þriggja eyja til að byggja á/í.

Einnig er manni boðið að spila leikinn í svokölluð „Sandbox mode“. Þar hefur maður óendanlegt magn af peningum til að byggja og leika sér en miklu minni sögu. 

Það að byggja bækistöðvar er mögulega það skemmtilegasta í EG2. Það finnst mér allavega.Rebellion

Það að byggja bækistöðvar finnst mér mjög gaman. Manni er lítið hjálpað og við spilunina lærir maður mikið af lexíum sem hefðu reynst manni vel í upphafi. Það á stóran þátt í því að ég er alltaf að byrja upp á nýtt.

Við inngang bækistöðvanna er spilavíti sem maður getur byggt upp til að reyna að hægja á útsendurum réttvísinnar og koma í veg fyrir að þeir finni vísbendingar um hve mikið illmenni maður er.

Maður hefði viljað sjá þann hluta umfangsmeiri og betur útfærðan. Sérstaklega þar sem mjög mikill tími líður áður en maður getur gert það almennilega.

Djöfullegar gildrur

Fyrir innan spilavítið er spilurum hollast að hafa ganga þar sem útsendarar finna fáar vísbendingar um ódæði og enda þess í stað á því að lenda í vel útfærðum gildrum.

Stærsti gallinn sem ég hef fundið við gildrurnar er að maður er svo lengi að geta byggt þær flottustu. Það eina sem ég óska mér er að geta látið einhvern drullusokk verða fyrir stórum boxhanska og enda í hákarlatanki. Mér finnst ég ekki biðja um mikið.

Hér má sjá skemmtilegt yfirlit yfir hvaða ódæði maður getur framið í leiknum.

Samantekt-ish

EG2 er í senn skemmtilegur og þreytandi. Ef ég væri ekki með annan skjá til að horfa á eitthvað á meðan ég spila leikinn, myndi ég eflaust ganga af göflunum. Það er mjög gaman að byggja bækistöðvar í leiknum og stilla upp gildrum fyrir útsendara sem vilja stöðva mann en allt of mikill tími fer í leiðinlega handavinnu, sem ætti að vera óþarfi.

Það fer í taugarnar á mér að hafa orðið fyrir vonbrigðum með EG2. Það virðist hafa gerst oft undanfarið ár og jafnvel rúmlega það. Ég mun þó væntanlega halda áfram að spila, þar sem ég er sökker fyrir svona leikjum, en bind vonir við að hann verði endurbættur og þá sérstaklega heimskortið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.