Í NBA dagsins má sjá svipmyndir úr stórleik Utah Jazz og Phoenix Suns, sem og úr sigri Boston gegn New York og Denver gegn San Antonio Spurs.
Hinn 35 ára gamli Chris Paul kom til Phoenix í nóvember frá Oklahoma City Thunder og hefur reynst liðinu afar dýrmætur. Þannig var það í sigrinum á Utah þar sem hann skoraði 29 stig, meðal annars úr þriggja stiga skoti þegar mínúta var eftir af framlengingu og tveimur vítaskotum til að innsigla sigurinn.
Utah er enn efst í vesturdeild með 38 sigra og 13 töp en Phoenix er með 36 sigra og 14 töp. Vel gæti farið svo að liðin leiki um vesturdeildartitilinn í úrslitakeppninni í sumar.
Boston og New York berjast um að komast í hóp sex efstu liða austurdeildar, og tryggja sér þar með sæti í úrslitakeppninni. Liðin í 7.-10. sæti þurfa að fara í sérstakt umspil um að komast í úrslitakeppnina, og er Boston nú í 7. sæti og New York í 8. sæti en mjög stutt er í Miami Heat, Atlanta Hawks og Charlotte Hornets þar fyrir ofan.
Boston 101-99 sigur í gærkvöld þar sem Jaylen Brown skoraði 32 stig og tók 10 fráköst. Mikið gekk á í lokin eins og sjá má í myndskeiðinu hér að ofan.
Nikola Jokic skoraði 25 stig, gaf tíu stoðsendingar og tók níu fráköst í 106-96 sigri Denver á San Antonio. Hann vantaði því aðeins eitt frákast til að fullkomna þrettándu þrennuna sína á tímabilinu. Denver hefur nú unnið sjö leiki í röð og er fyrir ofan meistara LA Lakers, í 4. sæti vesturdeildarinnar. San Antonio er í 9. sæti.