Skoðun

Hremmingar friðar­sinna á Gaza­svæðinu

Finnur Thorlacius Eiríksson skrifar

Fyrir tæpu ári skrifaði ég grein um Rami Aman, 39 ára friðarsinna frá Gazasvæðinu. Hamas-samtökin höfðu fært hann í fangelsi fyrir þann glæp að skipuleggja Zoom-fund með ísraelskum friðarsinnum.Ungmennanefnd Gaza (The Gaza Youth Committee) hefur haldið fjölda slíkra funda með einstaklingum frá Ísrael, Bandaríkjunum og Evrópu undanfarin fimm ár.

Hind Khoudari, fréttakona sem hefur starfað fyrir Russia Today og Middle East Eye, komst á snoðir um fundinn sem var haldinn þann 6. apríl í fyrra og gerði fulltrúum Hamas-samtakanna viðvart. Í kjölfarið var Aman handtekinn ásamt sjö öðrum meðlimum nefndarinnar. Fyrir nokkrum dögum, eftir langa þögn, greindi fréttaveitan AP loks frá afdrifum Amans síðan hann var handtekinn.

Fangelsaður og þvingaður til að binda enda á hjónabandið

Eftir handtöku Amans sætti hann viðstöðulausum yfirheyrslum í heila viku en á meðan þeim stóð þurfti hann að dvelja í alræmdum fangaklefa sem nefnist „rútan“. Í klefanum eru fangar þvingaðir til að sitja á litlum stólum með bundið fyrir augun allan liðlangan daginn. Þeir mega aðeins standa upp til að fara á salernið, til að biðja og þegar þeir eru færðir til yfirheyrslu. Aman segir að hann hafi varið átján skelfilegum dögum í „rútunni“ þar sem hann sætti illri meðferð á hverjum degi. Að svo búnu var hann færður í annan, þrengri fangaklefa.

Vegna Zoom-fundarins var Aman ásakaður um að vinna með Ísraelsríki – ásökun sem gæti leitt til dauðarefsingar. En fljótlega komst Aman að því að önnur ástæða lá að baki fangelsun hans. Hann hafði skömmu áður gifst dóttur fulltrúa Hamas-samtakanna sem er búsettur í Egyptalandi. Aman sagði að hún hafi haft trú á friðarboðskapnum og að hún hafi tekið þátt í mörgum samtölum við Ísraelsmenn (nafn hennar hefur ekki verið birt af öryggisástæðum). En eftir að upp komst um Zoom-fundinn var Hamas-liðum mikið í mun að Aman og eiginkona hans myndu skilja. Allt umtal um tengsl Hamas-liða við slíkan mann þætti mjög neyðarlegt fyrir samtökin. Aman var því haldið í fangelsi til að þvinga hann til að binda enda á hjónabandið.

Á sama tíma var eiginkona Amans einnig handtekin. Þann 28. júní fékk hún loks að heimsækja hann í fangelsið en þá hafði henni nýlega verið sleppt úr haldi. Í júlí var Aman færður í aðalfangelsi Hamas-samtakanna þótt hann hafi enn ekki hlotið dóm. Að lokum gafst hann upp og skrifaði undir skilnaðarpappírana eftir að hafa fengið loforð um lausn úr fangelsinu daginn eftir. Samt sem áður var honum haldið þar föngnum í tvo mánuði til viðbótar.

Þann 25. október opnuðu Egyptar landamæri sín að Gazasvæðinu til að hleypa í gegn sendinefnd Hamas-samtakanna. Eiginkona Amans var með í för og í Egyptalandi var henni komið fyrir hjá ættingjum sínum. Leigusali íbúðar hennar í Gaza staðfesti að hún hafi komið þangað til að sækja eigur sínar í fylgd fulltrúa Hamas-samtakanna, eftir að henni hafði verið sleppt úr fangelsi. Henni var síðan tímabundið komið fyrir í kvennaathvarfi áður en hún var flutt til Egyptalands.

Um svipað leyti var Aman loks sleppt úr fangelsi en honum var jafnframt bannað að yfirgefa Gazasvæðið. Eftir að hann fékk boð um að flytja fyrirlestur í háskóla í New York hindruðu fulltrúar Hamas-samtakanna hann í að fara til Ísraels til að sækja um vegabréfsáritun í bandaríska sendiráðinu þar. Eins og mál standa í dag hefur Aman lagt pólitíska baráttu sína á hilluna: „Nú hái ég mína persónulegu baráttu: að snúa aftur til konunnar minnar.“

Þegar sannindi passa ekki við narratífið

Reynsla Rami Amans sýnir á skýran hátt að Hamas-stjórnin er bæði andsnúin mannréttindum Palestínumanna og friðarviðræðum við Ísraelsmenn. Heilt ár er liðið síðan Aman var hnepptur í fangelsi en lítið sem ekkert hefur verið fjallað um mál hans í almennum fjölmiðlum, að undanskildum örfáum greinum. Því miður er ástæðan sú að ill meðferð palestínskra yfirvalda á eigin þegnum passar ekki við „narratífið“ sem flestir almennir fjölmiðlar hafa fylgt í marga áratugi. Þetta narratíf byggir á því að allar stofnanir og samtök Palestínumanna þurfi sjálfkrafa að vera í hlutverki „þolanda“ – jafnvel þegar sú er greinilega ekki raunin. Ísraelsríki er iðulega kennt um allt sem aflaga fer á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna sem í flestum tilvikum er í raun ábyrgð palestínskra yfirvalda. Til að einstaklingar eins og Rami Aman fái tækifæri til að berjast fyrir friði á sanngjörnum grundvelli þarf margt að breytast í umfjöllun almennra fjölmiðla um deiluna fyrir botni Miðjarðarhafs.

Höfundur skrifar fyrir hönd MIFF (Með Ísrael fyrir friði) á Íslandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×