Körfubolti

Denver fékk loks að hafa áhorfendur og hélt upp á það með sigri á toppliði Austurdeildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jamal Murray þakkar fyrir stuðninginn eftir sigur Denver Nuggets á Philadelphia 76ers.
Jamal Murray þakkar fyrir stuðninginn eftir sigur Denver Nuggets á Philadelphia 76ers. getty/AAron Ontiveroz

Stuðningsmenn Denver Nuggets fengu loksins að mæta á völlinn og sáu sitt lið sigra Philadelphia 76ers, 104-95, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Þetta var í fyrsta sinn síðan keppni í NBA var hætt vegna kórónuveirufaraldursins á síðasta ári sem áhorfendur máttu mæta á heimavöll Denver. Og þeir höfðu góð áhrif á heimamenn gegn Philadelphia, toppliði Austurdeildarinnar.

„Þeir skiptu okkur öllu máli,“ sagði Jamal Murray um stuðningsmenn Denver. Murray skoraði þrjátíu stig fyrir Denver sem tók völdin strax í 1. leikhluta sem liðið vann, 44-22. Michael Porter skoraði 27 stig og tók tólf fráköst og Nikola Jokic var með 21 stig og tíu fráköst.

Enginn leikmaður Philadelphia skoraði meira en þrettán stig. Liðið er enn án miðherjans öfluga, Joels Embiid, sem er meiddur.

Phoenix Suns heldur áfram að gera það gott og í nótt lagði liðið Atlanta Hawks að velli, 117-110. Þetta var þriðji sigur Phoenix í röð og sjötti sigurinn í síðustu sjö leikjum.

Devin Booker skoraði 21 stig fyrir Phoenix og Dario Saric tuttugu. Liðið er í 2. sæti Vesturdeildarinnar.

Bogdan Bogdanovic skoraði 22 stig fyrir Atlanta og Trae Young var með nítján stig og þrettán stoðsendingar.

Úrslitin í nótt

  • Denver 104-95 Philadelphia
  • Phoenix 117-110 Atlanta
  • Washington 104-114 Charlotte
  • LA Clippers 96-103 Orlando

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.