Handbolti

Óðinn Þór hafði betur gegn Ágústi Elí og Hol­stebro getur enn orðið deildar­meistari

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Óðinn Þór og félagar hans í Holstebro eiga óvæntan möguleika á deildarmeistaratitlinum eftir sigur í kvöld.
Óðinn Þór og félagar hans í Holstebro eiga óvæntan möguleika á deildarmeistaratitlinum eftir sigur í kvöld. Lars Kofoed

Óðinn Þór Ríkharðsson hafði getur gegn Ágústi Elí Björgvinssyni er Holstebro vann öruggan sex marka sigur á Kolding í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Lokatölur leiksins 30-24 eftir að aðeins hafði munað tveimur mörkum á liðunum í hálfleik.

Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik leiddi Holstebro með tveggja marka mun, staðan þá 17-15.

Heimamenn í Holstebro reyndust sterkari aðilinn og juku forskotið upp í sex mörk áður en leiktíminn rann út, lokatölur 30-24.

Ágúst Elí hóf leik kvöldsins á bekknum en kom inn á undir lok fyrri hálfleiks. Alls varði hann átta skot í leiknum eða 33 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Óðinn Þór skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu.

Sigur hefði tryggt sæti Kolding í úrslitakeppninni en liðið er sem stendur þremur stigum á undan Ribe-Esbjerg og Fredericia. Þau eiga tvo leiki eftir á meðan Kolding á aðeins einn, gegn botnliði Lemvig á páskadag.

Holstebro er á sama tíma í þriðja sæti deildarinnar, aðeins stigi á eftir toppliðum Álaborgar og GOG. Óðinn og Félagar mæta einmitt Álaborg í lokaumferð deildarinnar þar sem sigur gæti þýtt deildarmeistaratitill ef GOG tapar síðustu tveimur leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×