Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Fram 23-29 | Fram í engum vandræðum með botnliðið

Andri Már Eggertsson skrifar
Fram vann sinn þriðja sigur í röð í kvöld.
Fram vann sinn þriðja sigur í röð í kvöld. Vísir/Hulda

Fram vann sannfærandi sigur á botnliði ÍR. Fram komst yfir snemma leiks og litu aldrei um öxl eftir það og unnu 6 marka sigur 23-29.

Stefán Darri Þórsson mætti til leiks af miklum krafti í Fram liðinu, Stefán Darri skoraði fyrstu þrjú mörk Fram í leiknum og var ljóst að hann var tilbúinn í slaginn.

Fram komst snemma leiks fjórum mörkum yfir 3-7 sem setti ÍR strax á hælana í upphafi leiks og brást Kristinn Björgúlfsson þjálfari ÍR við með að taka leikhlé.

Fram hélt áfram að spila góðan sóknarleik út fyrri hálfleikinn, þeir gerðu vel í að halda ÍR ingum frá sér og voru yfir 14-18 í hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði líkt og sá fyrri, Fram voru með tökin á leiknum til að byrja með en eftir fyrstu tíu mínútur seinni hálfleiks kveiknaði smá neisti á ÍR.

ÍR gerði þrjú mörk í röð og minnkuðu leikinn í aðeins eitt mark, Fram gaf þá bara aðeins í og slitu þá aftur frá sér og lokuðu leiknum nokkuð sannfærandi 23-29.

Af hverju vann Fram 

Fram er á talsvert betri stað en ÍR. Fram vann þennan leik á áhlaupum. Fram komst snemma leiks í 3 - 7 og var það forskot stef leiksins, ÍR minnkaði af og til leikinn en Fram setti bara auka kraft í aðgerðirnar sínar sóknarlega þegar á reyndi og mátti sjá að þeir ætluðu ekki að setja of mikla orku í að vinna leikinn í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Lárus Helgi Ólafsson átti flottan leik í marki Fram, hann átti góðan seinni hálfleik og varði í heildina 19 bolta. 

Stefán Darri Þórsson byrjaði leik kvöldsins mjög vel, hann setti fyrstu 3 mörk leiksins og endaði á að skora 5 mörk úr 6 skotum.

Hvað gekk illa?

ÍR byrjuðu leikinn afar illa og gáfu Frömurum rausnarlegt forskot sem setti þá strax í erfiða stöðu að vera elta allan leikinn. 

Gegnumgangandi allan leikinn voru ÍR að fara illa af ráði sínu í dauðafærum þegar þeir gátu komið sér betur inn í leikinn. 

Hvað gerist næst?

Næsta umferð hefst strax næsta fimmtudag þegar Fram mætir ÍBV í Safamýrinni klukkan 18:00. ÍR mætir Selfoss í Hleðsluhöllinni klukkan 19:30 næsta fimmtudag.

Sebastian Alexandersson: Unnum þennan leik á þolinmæðinni

Sebastian Alexandersson var ánægður með karakterinn í sínu liði í kvöld.Vísir/Sigurjón

„Þetta var þolinmæðis vinna í kvöld, við fengum góðan sóknarleik í fyrri hálfleik, síðan góðan varnarleik í seinni hálfleik og héldum haus í kvöld," sagði Basti þjálfari Fram kátur með að sínir menn héldu út í 60 mínútur.

Þorgrímur Smári fékk tveggja mínútna brottvísun fyrir tuð og var Basta ekki skemmt á hliðarlínunni enda á mikilvægum tímapunkti í leiknum.

„Ég er ekki sáttur við Þorgrím verandi kominn yfir þrítugt og fá á sig tveggja mínútna brottvísun fyrir kjaftbrúk," sagði Basti en fyrirgaf Þorgrími þetta vegna þess Fram vann leikinn.

„Færeyingarnir báðir voru ryðgaðir í kvöld og var ég næstum búinn að taka þá útaf, þeir komu til landsins á þriðjudaginn og hafa verið í sóttkví, þeir spiluðu lítið í landsleikjunum svo þetta hefur verið tveggja vikna sumarfrí hjá þeim." 

Kristinn Björgúlfsson: Við vorum ólíkir sjálfum okkur í upphafi leiks

Kristinn Björgúlfsson var svekktur með niðurstöðu leiksinsVísir/Vilhelm

Kristinn Björgúlfsson þjálfari ÍR var ósáttur með hvernig liðið hans fór með dauðafærin sín í leiknum og hafði orð á því að Fram vann leikinn vegna þess þeir fóru betur með dauðafærin heldur en þeir.

„Ég var ósáttur með hvernig menn mættu til leiks, menn voru þungir og ólíkir sjálfum sér og því sem við viljum standa fyrir, svona er boltinn stundum mæta menn bara ekki tilbúnir til leiks sama hvort það séu við eða aðrir," sagði Kristinn svekktur.

Kristinn var ánægður með neistann sem liðið sýndi til að byrja með í seinni hálfleik.

„Menn þjöppuðu sér saman og börðust í þessum kafla, Fram skoraði tvö mörk fyrsta korterið í seinni hálfleik þannig ég er svekktur að hugsa til þess hvað hefði gerst hefðum við skorað úr okkar dauðafærum." 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.