Handbolti

Gísli fór úr axlarlið og tímabilið búið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson var augljóslega sárþjáður eftir að hafa meiðst gegn Füchse Berlin í gær.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var augljóslega sárþjáður eftir að hafa meiðst gegn Füchse Berlin í gær. getty/Peter Niedung

Gísli Þorgeir Kristjánsson fór úr axlarlið í leik Magdeburg og Füchse Berlin í þýsku úrvalsdeildinni í gær. Hann þarf að fara í aðgerð og spilar ekki meira á þessu tímabili.

Gísli meiddist þegar hann skoraði 25. mark Magdeburg á 54. mínútu í leiknum í gær. Hann var sárþjáður og fór af velli á sjúkrabörum.

„Hann fór úr lið á vinstri öxl. Eftir skotið datt hann, bar fyrir sig vinstri olnbogann og fór úr lið. Þetta er í þriðja sinn sem þetta gerist og hann var óheppinn að setja vinstri öxlina fyrir sig,“ sagði Kristján Arason, faðir Gísla, í samtali við Vísi í dag.

„Honum var kippt í lið af lækni en það þarf að festa þetta betur þannig að hann þarf að fara í aðgerð. Hann er á spítala núna og var þar í nótt. Núna þarf að taka ákvörðun um næstu skref,“ bætti Kristján við.

Gísli hefur glímt við þrálát axlarmeiðsli og meiddist meðal annars illa í leik gegn Flensburg fyrir rúmu ári. Hann hafði hins vegar náð góðum bata og var kominn á gott ról. Gísli hefur spilað vel með Magdeburg í vetur og átti mjög góða leiki á HM í Egyptalandi.

„Þetta er mjög svekkjandi en þetta er svona. Það reynir á kappann en hann hefur sýnt úr hverju hann er gerður. Hann er staðráðinn í að halda áfram og koma sterkari til baka,“ sagði Kristján.

Gísli skoraði tvö mörk í leiknum í gær sem Magdeburg vann, 29-24. Magdeburg er í 2. sæti deildarinnar með 32 stig, jafn mörg og topplið Flensburg sem á þrjá leiki til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×