Innlent

„Upplifi mig mjög svo varnarlausa og hvergi örugga“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Svona var aðkoman í gærmorgun þegar Svala Lind ætlaði að setjast upp í bílinn sinn.
Svona var aðkoman í gærmorgun þegar Svala Lind ætlaði að setjast upp í bílinn sinn.

Svala Lind Ægisdóttir segist upplifa sig varnarlausa og hvergi óhulta. Það sama gildi um son hennar og fjölskyldumeðlimi sem sæti hótunum og eignaspjöllum af hendi karlmanns. 

Þriggja mánaða nálgunarbann virðist engu skipta og síðast kom Svala Lind að bíl sínum í vikunni þar sem búið var að mölva rúður í bílnum. Hún kallar eftir svörum frá dómsmálaráðherra.

Svala Lind ræddi málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hún segir martröðina hafa hafist að kvöldi 23. nóvember, fyrir tæpum fjórum mánuðum.

Lýsir morðhótunum og eignartjóni

„Sonur minn er sóttur af ákveðnum aðila. Hann fer með hann í 75 mínútna bíltúr þar sem hann verður fyrir frelsissviptingu, ofbeldi og morðhótunum. Honum er skilað 75 mínútum síðar í leigubíl. Síðan þá hefur okkar martröð hafist. Hún hefur verið meira og minna linnulaus, með smá pásum á nýju ári, og nú komin af stað af fullum krafti. Morðhótunum, eignatjóni og alls kona tjóni,“ segir Svala Lind.

Hún nafngreinir ekki aðilann en samkvæmt heimildum fréttastofu er um að ræða karlmann á þrítugsaldri.

„Það er búið að brjóta tvöfalt nálgunarbann, bæði á mig og son minn,“ segir Svala Lind. Hann veigri sér ekkert við að brjóta á nálgunarbanninu. Og ástæðan?

„Af afbrýðissemi út af stelpu. Þessi stúlka er að vinna á sama vinnustað og sonur minn. Það þarf ekki meira til. Viðkomandi er fyrrverandi kærasti stúlku sem er að vinna með syni mínum,“ segir Svala Lind. Þess utan hafi sonur hennar og maðurinn stundað líkamsrækt í sömu líkamsræktarstöð. Það sé öll baksagan.

Átti ekki von á handrukkara eða glæpamanni

Svala Lind rekur atburðarásina kvöldið 23. nóvember þar sem líf fjölskyldunnar var sett á hliðina. Fyrstu kynnin af manninum.

„Hann dinglar og ég opna. Hann spyr bara eftir syni mínum eins og hver annar maður gerir. Maður reiknar ekki með að maður sé að fá handrukkara eða glæpamann inn á gólf hjá sér. Ég kalla á son minn sem kemur til dyra. Það er þegjandi og hljóðalaust labbað út,“ segir Svala Lind.

„Ég fæ þessa óþægilegu tilfinningu þannig að ég fer strax af stað að fylgjast með og hringja linnulaust í son minn, meðan hann er í burtu. Til að athuga hvað gangi á. Ég þekkti ekki þennan aðila og vissi ekki hver hann var þegar hann kemur.“

Eftir frelsissviptinguna og ofbeldið hafi borist hótanir.

„Honum er sem sagt hótað, að ef við munum snúa okkur til lögreglu eða segja frá þá munum við öll láta lífið. Við erum öll talin upp í röð. Svo hefjast endalaus símtöl, No caller ID símtöl, úr hans eigin síma, skilaboð, skilaboð í gegnum annað fólk, hótanir í gegnum annað fólk, hótanir í gegnum Instagram. Að keyra fyrir utan heima hjá okkur með látum, með mjög annarlegu aksturslagi fram og til baka í rólegu fjölskylduhverfi. Hann áreitir okkur á vinnustað, kemur á vinnustaðinn okkar,“ segir Svala Lind.

Skorið á dekk við vinnustaðinn

Í eitt skiptið var hann vopnaður hníf.

„Hann kemur á vinnustaðinn minn og sker á dekkin á bílnum mínum. Það er allt saman tekið upp á myndavél. Við erum með margar sannanir um að hann hafi ítrekað brotið á okkur.“

Þannig hafi þetta gengið á meira og minna frá 23. nóvember. Hún hafi strax þá um kvöldið tilkynnt karlmanninn til lögreglu. Raunar ber Svala Lind lögreglunni ágætlega söguna.

Svala Lind segist ekki hafa neitt við störf lögreglu að athuga. Hún sé í stöðugu sambandi við lögregluna.Vísir/Vilhelm

„Lögreglan er búin að standa sig ótrúlega vel að reyna að vernda okkur og passa upp á okkur,“ segir Svala Lind. Lögreglan virðist þó hafa takmarkaðar heimildir. Ítrekuð brot á nálgunarbanni hafi aðeins skilað sér í tiltali.

„Hann hefur verið tekinn í tiltal niður á stöð en ekki verið dúsa inni neitt. Ekki settur í síbrotagæslu þrátt fyrir ítrekuð brot.“

Þeirra á meðal séu morðhótanir.

Upptökur til af barsmíðunum

„Ég er svo heiðarlegur borgari að ég hélt að það væri nóg að nema mann á brott, frelsissvipta og hóta lífláti. Það væri akkúrat það sem þyrfti til að fá mann á bak við lás og slá.“

Upphaflega árásin 23. nóvember var kærð til lögreglu. Til séu upptökur af barsmíðunum. Nóg af sönnunargögnum. Það mál er enn í vinnslu hjá lögreglunni að sögn Svölu Lindar. Hún segist vera í stöðugum samskiptum við lögregluna og tilkynna öll samskipti og brot.

„Ég er í miklum samskiptum við lögregluna út af þessu. Á tímabili vorum við að hringja oft á dag eftir aðstoð.“

Síðasta málið sem komið hafi upp hafi verið í gærmorgun þegar hún kom að bílnum sínum. Þá hafi hún tjáð sig um málið á Facebook og taggað Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og lögregluna.

Bíður svara frá ráðherra

„Ég er búin að senda Áslaugu Örnu tölvupóst og segja henni frá málinu okkar. Óska eftir því að hún kynni sér það og taki til skoðunar. Mér finnst þetta vera komið allt of langt. Ég er búin að reyna að vera þolinmóð og bíða eftir að lögregla aðhafist eitthvað meira í málinu. Við erum ekki komin lengra en þetta og farið að reyna á þolinmæðina mína.“

Svala Lind kallar eftir svörum frá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. Ráðherra fékk nýlega samþykkt frumvarp á Alþingi sem snýr að eltihrellum.Vísir/Vilhelm

Hún segir brotalöm í kerfinu. Lögregla standi sig en það virðist svo mikið þurfa til að gripið sé inn í.

„Og það er ekki rétt að brotaþoli þurfi að fara í gegnum svona marga hluti og gerandi njóti meira öryggis en ég nokkurn tímann sem sit í gíslingu heima hjá mér. Nóttin mín var þannig að lögregla keyrði fram hjá húsinu mínu á fimm mínútna fresti liggur við. Ég vakti í alla nótt til þes að vera viðbúin ef eitthvað gerist. Ég veit ekkert hvort ég fái þennan mann inn á gólf til mín. Ég vil ekki vakna við það. Vil vera vakandi og tilbúin.“

Viðbrögðin við færslunni í gær hafi verið mikil.

Upplifir sig mjög varnarlausa

„Ég hef aldrei fengið svona mikil viðbrögð á ævi minni. Rosalega margt fólk með miklar áhyggjur, mjög hrætt um okkur og fólk sem skilur ekkert í því að kerfið skuli ekki virka og gera eitthvað í þessari stöðu.“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir STAÐAN ER ÓBREYTT! XXXXXX var hér undir morgunn fyrir...

Posted by Svala Lind Aegisdottir on Tuesday, March 16, 2021

Hún hafi þó ekkert heyrt frá ráðherra. Lögreglumaður hafi komið í gær og tekið skýrslu og myndir.

„Ég upplifi mig mjög svo varnarlausa og hvergi örugga. Um leið og maður stígur út fyrir dyrnar heima hjá sér þá er maður berskjaldaður og hræddur. Við erum búin að vera meira og minna í gíslingu heima hjá okkur síðan þetta byrjaði. Ég og sonur minn og fleiri í fjölskyldunni sem eru hræddir því þeim hefur verið ógnað. Samstarfsfólki sonar míns líka. Ógnað og hótað.“

Hún krefst svara frá ráðherra og lögreglu.

„Af hverju er ekki hægt að gera meira en þetta? Lögfræðingurinn reynir að gera það sem hann getur,“ segir Svala Lind. Svo virðist sem brotamaðurinn þurfi helst að koma inn á gólf heima hjá mér svo hægt sé að setja hann í síbrotagæslu.

„Það finnst mér ekki í lagi miðað við hótanirnar sem ég er búin að vera að fá.“

Ný lög um umsáturseinelti

Nýlega var samþykkt frumvarp dómsmálaráðherra á Alþingi sem snýr að umsáturseinelti. Eltihrellarr gætu átt von á allt að fjögurra ára fangelsisvist. Um sex prósent landsmanna varð fyrir barðinu á eltihrelli árið 2019. Áslaug Arna sagði í samtali við Stöð 2 nýlega að mikilvægt væri að grípa til aðgerða. Hvert mál sé máli of mikið.

Um er að ræða viðbót við almenn hegningarlög þar sem segir að hver sem endurtekið hótar, fylgist með, setur sig í samband við eða situr um annan mann og háttsemin er til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða skal sæta sektum eða fangelsi allt að fjórum árum.

„Þetta er auðvitað allt gert til að tryggja vernd fólks til að ganga um þetta samfélag óáreitt og það er það sem við viljum tryggja. Við höfum heyrt of margar sögur um það að núverandi ákvæði hafi ekki dugað,” sagði Áslaug Arna.

Nálgunarbann hefur hingað til dugað skammt í þessum aðstæðum og litlir eftirmálar á brotum gegn nálgunarbanni aðrir en sektargreiðslur í ákveðnum tilfellum. Líkt og í tilfelli Svölu Lindar sem lýst er að ofan. 

Áslaug Arna tjáði fréttastofu að fólk hefði getað fundið glufur á lögum um nálgunarbann og því hafi þurft að bregðast við.

„Eitt svona mál er bara einu máli of mikið,” sagði Áslaug Arna



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×