Handbolti

Blikkið sem vekur upp spurningar: „Svona lagað gerist ekki hjá Frökkum“

Sindri Sverrisson skrifar
Nicolas Tournat virðist hér blikka til Melvyn Richardson í síðasta leikhléi Frakka gegn Portúgal, rétt áður en Richardson kastaði boltanum frá sér og Portúgal skoraði sigurmarkið.
Nicolas Tournat virðist hér blikka til Melvyn Richardson í síðasta leikhléi Frakka gegn Portúgal, rétt áður en Richardson kastaði boltanum frá sér og Portúgal skoraði sigurmarkið. skjáskot/youtuberás IHF

Króatar eru í öngum sínum eftir að hafa misst af sæti í handboltakeppninni á Ólympíuleikunum í Tókýó. Þjálfari þeirra furðar sig á því að Frakkar hafi klúðrað afar góðri stöðu gegn Portúgölum.

Ef Frakkland hefði ekki tapað gegn Portúgal í gær, 29-28, hefði Króatía komist á Ólympíuleikana með Frakklandi. Frakkar, sem voru 28-25 yfir þegar fjórar mínútur voru eftir, máttu hins vegar við því að tapa með allt að sex marka mun án þess að missa af ólympíusæti.

Spurningar hafa vaknað eftir að Frakkar köstuðu frá sér forskoti sínu í lokin, um hvort þeir hafi einfaldlega frekar viljað fá Portúgal með sér til Tókýó en Króatíu. Ekki síst vegna frammistöðu Melvyn Richardson.

Í síðustu sóknum Frakka átti Richardson tvö skot sem voru varin og svo kastaði hann boltanum glæfralega aftur fyrir sig í hendur Portúgala fyrir hraðaupphlaupið sem sigurmarkið kom úr í blálokin.

Á myndbandi sem sænski blaðamaðurinn Johan Flinck birtir á Twitter má sjá Nicolas Tournat blikka auga í átt til Richardson, í leikhléi Frakka fyrir lokasókn þeirra.

Hægt er að horfa á síðustu mínútur leiksins hér að neðan en Frakkland komst í 28-25 þegar 1 klukkutími og 32 mínútur eru liðnar af myndbandinu.

Hrvoje Horvat, nýr þjálfari Króata, var vonsvikinn eftir að niðurstaðan lá fyrir. Hann kvaðst ekki hafa horft á leik Frakklands og Portúgals en sagði:

„Ég horfði ekki á leikinn en mér finnst það undarlegt að Frakkland hafi misst niður þriggja marka forskot í lokin, því svona lagað gerist ekki hjá Frökkum. Við unnum tvo leiki í þessu móti [gegn Portúgal og Túnis] en við unnum ekki Frakka og það reyndist dýrkeypt,“ sagði Horvat.

Portúgalar spiluðu með hjartanu og við vitum fyrir hvern

Nedim Remili, landsliðsmaður Frakka, var spurður hvernig liðið hefði farið að því að kasta svona frá sér forskotinu í lokin:

„Það er erfitt að lýsa því hvernig mér líður núna. Við náðum sæti á Ólympíuleikunum en ég er líka svolítið vonsvikinn yfir þessum síðasta leik. Við slökuðum á, vorum ekki eins ákafir í varnarleiknum… og Portúgalarnir spiluðu með hjartanu. Við vitum af hverju og fyrir hvern,“ sagði Remili og vísaði til Alfredo Quintana, fyrrverandi landsliðsmarkvarðar Portúgals, sem var bráðkvaddur í febrúar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×