Körfubolti

Felldu til­­löguna um að stelpna- og strá­kalið geti mæst

Anton Ingi Leifsson skrifar
Í liði Aþenu eru meðal annars stelpur sem barist hafa fyrir því að mega spila á mótum með strákum.
Í liði Aþenu eru meðal annars stelpur sem barist hafa fyrir því að mega spila á mótum með strákum. @athenabasketballiceland

Stelpnalið og strákalið í körfubolta fá ekki að spila í sama flokki á Íslandsmóti fram til fjórtán ára aldurs en tillögu þess efnis var hafnað á ársþingi KKÍ í dag.

Karfan.is greinir frá. Aðalsöguhetjurnar í heimildamyndinni Hækkum rána, þjálfarinn Brynjar Karl Sigurðsson og stelpurnar sem hann þjálfar, vildu fá sömu tillögu í gegn á ársþingi KKÍ fyrir tveimur árum.

Stelpurnar kepptu þá á vegum ÍR sem sendi inn breytingatillöguna en á þinginu, þegar kom að því að móta tillöguna í laga- og leikreglunefnd, talaði enginn frá ÍR fyrir hugmyndinni. Málinu var því á endanum vísað frá.

Tillagan kom að þessu sinni frá Ungmennafélagi Kjalnesinga en Aþena, félagið sem Brynjar Karl kom á fót eftir að hann var rekinn frá ÍR, leikur undir hatti UMFK. Brynjar Karl talaði sjálfur fyrir tillögunni á þinginu, sem eini fulltrúi UMFK á þinginu og einn af 145 þingfulltrúum.

Í frétt Körfunnar segir að mikil umræða hafi skapast á þinginu og margir beðið um orðið. Einhverjir vildu lækka aldurinn í ellefu eða tólf ár, úr fjórtán árum frá upprunalegu tillögunni. Lagðar voru fram tvær breytingartillögur en þær voru báðar felldar sem og upprunalega tillaga UMFK.

Í núgildandi reglugerð KKÍ um körfuknattleiksmót er körfuknattleiksmönnum skipt í flokka eftir aldri og kyni. Þó að ekkert sé sagt um það í reglugerðinni hefur það hins vegar tíðkast að lið geti verið skipuð bæði strákum og stelpum. Aftur á móti hefur það ekki verið leyft að lið sem alfarið er skipað stelpum spili á Íslandsmóti stráka, eða öfugt.

Ársþing KKÍ stendur nú yfir.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×