Körfubolti

Ó­trú­legar frammi­stöður hjá Isa­bellu Ósk og Ariel Hearn er Breiða­blik og Fjölnir lönduðu góðum sigrum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Isabella Ósk átti ótrúlegan leik í kvöld. Hún skoraði 21 stig og tók 28 fráköst.
Isabella Ósk átti ótrúlegan leik í kvöld. Hún skoraði 21 stig og tók 28 fráköst. Vísir/Daniel Thor

Breiðablik og Fjölnir unnu leiki sína í Dominos-deild kvenna í kvöld. Breiðablik vann Snæfell örugglega í Smáranum, 93-76. Fjölnir vann Skallagrím í hörkuleik í Grafarvoginum, lokatölur 98-90.

Breiðablik vann nokkuð öruggan sigur á Snæfelli í kvöld. Heimastúlkur höfðu alltaf yfirhöndina en stungu að endingu af og unnu öruggan sigur í Smáranum í kvöld. Lokatölur 93-76 í annars skemmtilegum leik.

Jessica Kay Loera var stigahæst í liði Blika með 22 stig. Þar á eftir kom Ísabella Ósk Sigurðardóttir með 21 stig og 28 fráköst hvorki meira né minna. Ótrúlegar tölur. Haiden Denise Palmer var stigahæst í liði Snæfells með 23 stig ásamt því að taka tíu fráköst og gefa sjö stoðsendingar.

Breiðablik er nú með átta stig í sjötta sæti deildarinnar en Snæfell er með fjögur stig í því sjöunda.

Fjölnir vann góðan sigur á bikarmeisturum Skallagríms í hörkuleik í Dalhúsum í kvöld. Leikurinn var mjög jafn framan af en gestirnir frá Borgarnesi voru fjórum stigum yfir í hálfleik, staðan þá 51-47 gestunum í vil.

Fjölnisliðið mætti vel gírað inn í síðari hálfleik og náði fljótlega góðum tökum á leiknum. Sóknarleikur Fjölnis sprakk svo út í síðasta fjórðung þar sem liðið skoraði 31 stig, lokatölur 98-90 Fjölni í vil.

Ariel Hearn átti sannkallaðan stórleik í liði Fjölnis. Hún skoraði 46 stig, tók 13 fráköst og gaf átta stoðsendingar. Sara Carina Vaz Djassi kom þar á eftir með 19 stig.

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var frábær í liði Skallagríms en það dugði ekki til í kvöld.Vísir/Andri Marinó

Hjá Skallagrími var Keira Breeanne Robinson stigahæst með 39 stig ásamt því að taka tíu fráköst og gefa fimm stoðsendingar. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir kom þar á eftir með 25 stig.

Fjölnir er nú með 16 stig í fjórða sæti deildarinnar á meðan Skallagrímur er sæti neðar með 12 stig.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×