Handbolti

Gunnar: Ætli þetta hafi ekki bara verið sann­gjarnt

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka.
Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka. Vísir:Hulda Margrét

„Ég var að sjálfsögðu svekktur strax eftir leikinn. Við fáum færi enn og aftur á lokasekúndunni en svona er þetta,“ sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari Hauka í handbolta eftir jafntefli gegn ÍBV í 12. umferð Olís-deildar kvenna á Ásvöllum í kvöld. 

Haukar voru með boltann í lokasókn leiksins og hefðu getað unnið en fóru illa að ráði sínu og endaði leikurinn í jafntefli, 21-21. 

„Við náum að allavega að búa til færi þrátt fyrir að það hefði ekki dottið hjá okkur núna. Ég hefði alveg þegið stig á móti ÍBV en ég var mjög sáttur með stelpurnar. Vörnin var góð allan tímann.  Sóknarleikurinn dettur niður hjá báðum liðum í seinni hálfleik. Þá verður þetta bara varnarleikur og smá hnoð í sókninni.“

Á kafla í seinni hálfleik voru Hauka-stúlkur komnar þremur mörkum undir eftir að vera búnar að halda leiknum jöfnum. 

„Ég er hrikalega ánægður í seinni hálfleik þegar að við lendum þremur mörkum undir, að koma til baka og ná forystu. Það voru sveiflur í þessu. Ætli þetta hafi ekki bara verið sanngjarnt.“

Nú tekur smá pása í deildinni og hafa liðin tíma til að þjappa sér saman og stilla sig af. 

„Við ætlum að gera eins og við gerðum þegar við fengum að byrja æfa aftur. Æfa vel og fara yfir hlutina okkar og reyna að bæta okkur á þeim sviðum sem við þurfum að bæta okkur á,“ sagði Gunnar að lokum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×