Skoðun

Þjónusta á for­sendum þess sem nýtir hana

Ólafur Þór Gunnarsson skrifar

Þjónusta við eldra fólk er ekki einfalt mál. Mest er það vegna þess að fólk er misjafnt með misjafnar þarfir. Fólk hefur líka mismunandi aðstæður og getu til að sækja sér þjónustu eða óska eftir henni. Þá hefur fólk og þeir sem standa því næst misjafnan áhuga og vilja til að fá þjónustu. Þá geta aðstæður þar sem fólk býr verið misjafnar; dreifbýli-þéttbýli; býr einn-býr ekki einn; stuðningshúsnæði- „venjulegt“ húsnæði; nálægt þjónustu-fjarri þjónustu. Þá getur stuðningur fjölskyldu, vina og umhverfis skipt miklu um þjónustuþörf og vilja.

Allt eru þetta breytur sem við þekkjum, og mörg okkar hafa reynt. En sú breyta sem skiptir einna mestu máli m.t.t. þess að fá þjónustu er hver veitir hana , hver borgar og hver ber ábyrgð á henni. Í grófum dráttum má segja að þjónusta við eldra fólk sem þarf aðstoð sé þrískipt. Félagsþjónusta sem snýr að einfaldri aðstoð við heimilishald og félagsstarf og afþreyingu. Heilbrigðisþjónusta í formi heimahjúkrunar eða heilsugæslustöðva, endurhæfingar (ýmist á stöð eða í heimahúsi), eða læknis þjónusta sem er flóknari og krefst innlagnar eða eftirlits hjá sérfræðilæknum. Loks er þjónusta á hjúkrunarheimili þegar þjónustuþörfin er orðin meiri en svo að hægt sé að sinna henni í heimahúsi eða viðkomandi geti sótt hana út í bæ. Fyrri tveir þættirnir (félagsþjónusta og heilbrigðisþjónusta) eru ekki einstakar fyrir eldra fólk, við getum öll þurft á þessari þjónustu að halda óháð aldri, en flestir þeir sem búa á hjúkrunarheimilum eru aldraðir.

Það sem snýr að félagsþjónustu er skipulagt og að mestu greitt af sveitarfélögum í landinu ( notendur greiða í mismiklum mæli). Það sem snýr að heilbrigðisþjónustu er greitt af ríkinu (og notendum í einhverjum mæli). Þegar kemur að hjúkrunarheimilum eru daggjöld greidd af ríkinu til stofnana sem eru reknar af sveitarfélögum, einkaaðilum, félagasamtökum, sjálfseignarstofnunum (stundum blöndu af þessu öllu) og í sumum tilfellum ríkinu sjálfu eða félögum eða stofnunum í þess eigu. Finnist einhverjum þetta flókið, kemur það ekki á óvart, því það er það!

Ég hef lengi talað fyrir samþættingu þjónustu við eldra fólk. Að við byggjum ekki óþarfa veggi milli þjónustuþátta. Að við horfum á samfellu í þjónustu. Að henni sé stýrt og að ábyrgðin á veitingu hennar sé að sem mestu leiti á einni hendi. Mér finnst sveitarfélögin best til þess fallin að hafa stjórn á þjónustunni. Eins og með aðra nærþjónustu eiga þau að þekkja best hvar skóinn kreppir, hvar þörfin er og hvernig er best að tryggja góða nýtingu fjármagns, aðstöðu og mannafla. Umfram allt þarf þó þjónustan að vera á forsendum þess sem nýtir hana.

Höfundur er þingmaður VG í Kraganum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Skóli án að­greiningar

Halldóra Jóhannesdóttir Sanko,Laufey Elísabet Gissurardóttir,Unnur Helga Óttarsdóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.