Handbolti

Göppingen hafði betur þegar þeir heimsóttu Rhein-Neckar Löwen í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gunnar Steinn Jónsson í leik með íslenska landsliðinu. Hann skoraði eitt mark í kvöld.
Gunnar Steinn Jónsson í leik með íslenska landsliðinu. Hann skoraði eitt mark í kvöld. Vísir/Eva Björk

Rhein-Neckar Löwen fékk Göppingen í heimsókn í stórskemmtilegum leik í þýsku deildinni í kvöld. Þrír íslenskir leikmenn leika með þessum tveim liðum. Ýmir Örn Gíslason spilar fyrir Rhein-Neckar Löwen, en í herbúðum Göppingen eru þeir Gunnar Steinn Jónsson og Janus Daði Smárason. Janus Daði er að glíma við meiðsli og kom ekki við sögu í kvöld. Gunnar Steinn og Ýmir Örn skoruðu sitt markið hvor.

Leikurinn var virkilega jafn og spennandi, en Göppingen var með yfirhöndina lengst af. Gestirnir tóku stjórnina snemma leiks og náðu mest átta marka forskoti í fyrri hálfleik. 

Ýmir Örn og félagar gáfust þó ekki upp og minnkuðu muninn jafnt og þétt áður en liðin gegnu til búningsklefa. Munurinn í hálfleik einungis tvö mörk, staðan 15-17.

Það var lítið sem gat skilið liðin tvö að í seinni hálfleik. Liðin skiptust á að skora, og þegar lítið var eftir var staðan orðin jöfn, 29-29.

Að lokum voru það þó gestirnir frá Göppingen sem lönduðu eins marks sigri og eru því orðnir jafnir Fuchse Berlin í sjötta sæti deildarinnar með 23 stig. Rhein-Neckar Löwen eru áfram í fjórða sæti með 26 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×