„Við þurfum bara að eiga við þetta verkefni. Núna er þessi leikur búinn, við vissum að Stjarnan er eitt besta ef ekki besta liðið á landinu, og að erfitt yrði að sækja hingað sigur. Við gerðum margt gott og tökum það með okkur en svo er fókusinn bara á ÍR,“ sagði Finnur eftir leikinn í kvöld.
Fyrri hálfleikur var mjög góður hjá Valsmönnum en þeir náðu ekki að fylgja honum eftir:
„Mér fannst við missa þá upp í þennan hraða leik sem þeir vildu spila á stórum köflum í seinni hálfleiknum. Þeir náðu upp stemningu með fjórum þristum snemma í þriðja leikhlutanum og náðu að komast á eitthvað flug. Á sama tíma þurftum við að fara að hafa meira fyrir öllum hlutum. Svo kemur bara í ljós hversu vel þjálfað og æft þetta Stjörnulið er. Við fengum augnablik en það komu auðveldar körfur frá þeim inni á milli sem drápu þetta,“ sagði Finnur.
„Mitt lið er vel mannað en það má segja um öll lið í deildinni“
„Leikirnir eru upp og niður. Það skipti ekki öllu máli hvort við vorum fimm stigum undir eða tíu stigum yfir í hálfleik, við vildum bara halda áfram að reyna að gera það sama. Það var smáskellur að fá þristana beint í andlitið í byrjun þriðja leikhluta en leikurinn var samt í fínu jafnvægi í leikhlutaskiptunum. Svo misstum við þetta aðeins frá okkur og þetta var erfitt því þeir skutu boltanum vel í seinni hálfleik.
Það verður að hrósa þeim fyrir að gera margt vel á löngum köflum. Þegar mest á reyndi þá vantaði hjá okkur að vera með það enn betur á hreinu hvað við vildum gera og hvert við vildum sækja. Það vantaði meiri reynslu og þekkingu á milli manna en vesenið er að það er ekki hægt að bíða mikið lengur eftir því,“ sagði Finnur sem nýverið bætti Hjálmari Stefánssyni og Jordan Roland í sinn hóp.
Eflaust eru ýmsir þeirrar skoðunar að leikmannahópur Vals sé allt of góður til að komast ekki einu sinni í átta liða úrslitakeppnina. Hvernig finnst Finni að eiga við það?
„Þessi mannskapur á blaði er eins og hann er. Það er oft þannig að menn telja þá sem hafa afrekað eitthvað áður ofar en til dæmis erlendu leikmennina, sem eru margir og góðir í deildinni núna. Það skekkir myndina líka. Mitt lið er vel mannað en það má segja um öll lið í deildinni.“